Óbundnir innlánsreikningar bankanna bera nú á bilinu 0,05% til 0,5% vexti á ársgrundvelli, en fjárhæð innistæðu hefur áhrif á þau vaxtakjör sem bjóðast.

Í október mældist tólf mánaða verðbólga 3,6% og spáir Seðlabanki Íslands að verðbólga ársins 2021 verði 2,9%, en sumir greiningaraðilar telja að hún verði hærri.

Raunávöxtun innistæða er því neikvæð um þessar mundir og fátt bendir til þess að aðstæður breytist í bráð.

Lausafjársjóði má nýta til að fá betri kjör en bjóðast á innlánsreikningum en þeir eru þó ekki að skila jákvæðri raunávöxtun við núverandi aðstæður. Aftur á móti hafa ýmis skuldabréf og hlutabréf verið að skila góðri raunávöxtun.

Samkvæmt yfirliti Keldunnar yfir ávöxtun sjóða undanfarna tólf mánuði, þegar þetta er skrifað, hefur nafnávöxtun sjóða með meðallöng skuldabréf verið um 5 til 9 prósent á tímabilinu, nafnávöxtun sjóða með innlend hlutabréf verið um 8 til 37 prósent og nafnávöxtun sjóða með erlend hlutabréf í íslenskum krónum verið um 19 til 59 prósent.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að ávöxtun í fortíð er ekki ávísun á ávöxtun í framtíð, en ljóst má vera að full ástæða sé fyrir sparifjáreigendur að huga að eignasafni sínu og leita faglegrar ráðgjafar eftir því sem við á.

Vel dreifð eignasöfn skili góðri ávöxtun

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir í viðtali við Viðskiptablaðið helstu áskorunina við eignastýringu fram á veginn vera að aðlaga eignasöfn að breyttum markaðsaðstæðum.

„Í okkar viðskiptavinahópi eru margir sterkir skuldabréfaeigendur og stóra verkefnið núna er að ráðleggja fólki hvernig það getur stillt safnið sitt í takt við breytt vaxtalandslag, þannig að fólk geti átt von á því að fá jákvæða raunávöxtun án þess að áhætta verði of mikil,“ segir Kjartan Smári

Horft fram á við skiptir miklu máli að huga að eignadreifingu, að sögn Kjartans Smára. „Vel dreifð eignasöfn, með vel dreifðri áhættu, ættu að skila góðri ávöxtun fram á veginn, sem fyrr. Dreifingin er lykilatriði við svona aðstæður, að vera ekki með allt saman í einum eignaflokki.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .