Þrátt fyrir að stefnt hafi verið að því í tæpa tvo áratugi að tengja fjármögnun Landspítalans (LSH) umfangi veittrar þjónustu á spítalanum hefur innleiðing kerfisins gengið hægt. Sömu sögu er að segja af lögum um sjúkratryggingar, en þótt tæp fjórtán ár séu frá samþykkt þeirra hafa þau ekki komið að fullu til framkvæmda.

Sem kunnugt er er heilbrigðiskerfið einn stærsti árlegi útgjaldaliður hins opinbera. Samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar hefur álag á kerfið aukist og útgjöld, eðli málsins samkvæmt, samhliða því. Við blasir að sú þróun mun að öllu óbreyttu halda áfram.

Það kemur vafalaust einhverjum á óvart en skatttekjur eru ekki ótakmörkuð auðlind. Þau sem fara með fjárstjórnarvaldið reyna því yfirleitt að ráðstafa þeim takmörkuðu gæðum með sem hagkvæmustum hætti. Vegagerðin fær til að mynda úthlutað fjármunum til að leggjast í tilteknar framkvæmdir og þegar upp er staðið má berja augum nýtt samgöngumannvirki. Öllu erfiðara getur verið að glöggva sig á í hvað fjármunirnir í heilbrigðiskerfinu fara nákvæmlega.

Lögum um sjúkratryggingar, sem samþykkt voru í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, var ætlað að bregðast við þessu. Ríkið hafði verið, og er enn, langstærsti kaupandi heilbrigðisþjónustu hér á landi en stærsti viðsemjandinn var sjúkrahúsin. Lögunum var ætlað að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda þjónustu og fela Sjúkratryggingum (SÍ) að sinna því hlutverki. Þá átti enn fremur að kostnaðargreina kerfið, taka upp blandaða fjármögnun og tryggja að fjármagn fylgdi notanda þjónustunnar en ekki stofnuninni sjálfri.

Fyrstu árin eftir gildistöku laganna átti að nýta til að laga starfsemina að hinu nýja kerfi en það gekk ekki sem skyldi. Aðstæður í efnahagslífinu urðu ekki til þess að auðvelda það verk og var það slegið svo til alfarið út af borðinu í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Greitt í topp fyrir 90% eininga

Hreyfing komst á málið aftur árið 2016 en þá ritaði heilbrigðisráðherra, þá Kristján Þór Júlíusson, undir samkomulag við LSH um að fjármögnun spítalans yrði tengd umfangi veittrar þjónustu. Samningurinn byggði á svokölluðu DRG-kerfi (e. Diagnostic Related Grouping).

Samkvæmt kerfinu er þjónusta spítalans nákvæmlega skilgreind, meðal annars eftir sjúkdómsgreiningu, meðferð, kyni og aldri. Hver flokkur er síðan verðlagður, sem gerir kaupanda og seljanda kleift að skilgreina kostnað að baki hverri meðferð og sjá hvernig fjármunum er varið. Í kjölfarið getur kaupandi þjónustunnar, það er ríkið, metið hvar er hagstæðast að veita hana, þá hjá LSH, annarri ríkisrekinni heilbrigðisstofnun eða með því að semja við einkaaðila um veitingu hennar. Í öllum tilfellum er það SÍ sem ákveður hvaða kröfur þjónustan þarf að uppfylla, semur um hve mikið skuli greitt fyrir hana og hefur eftirlit með því að samningnum sé fylgt.

Umrætt DRG-kerfi byggir á erlendri fyrirmynd, en fyrstu tilraunir með það voru gerðar á LSH upp úr aldamótum. Flokkunin, sem upphaflega var sænsk, var þá innleidd í þrepum á deildum spítalans. Eftir að hafa unnið að því var íslensk útgáfa kerfisins tilbúin árið 2007 en fjármögnun kerfisins hefur ekki breyst.

Samkvæmt fyrrgreindum samningi frá 2016 átti að nýta það ár til að „skuggakeyra“ samninginn án þess að hann hefði fjárhagsleg áhrif, hvorki á SÍ né LSH. Ári síðar átti aftur á móti að innleiða nýtt fyrirkomulag að fullu. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að framan af hafi gengið nokkuð erfiðlega að fá LSH að samningaborðinu. Endurspeglaðist það meðal annars í því að til að byrja með var samið um tiltekinn DRGeiningafjölda, sem dreift var niður á ákveðnar aðgerðir og þjónustu sem spítalanum bar að inna af hendi. Til að fá fullar greiðslur þurfti spítalinn að ná að ljúka 90- 100% umsaminna eininga. Með öðrum orðum hefði spítalinn getað unnið 90% verksins en fengið að fullu greitt þrátt fyrir það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .