Pósturinn greinir nú töluverða aukningu á innlendri netverslun eða sem nemur um 20% að því er segir í tilkynningu sem Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins hefur sent frá sér.

Mörg fyrirtæki eru að beina viðskiptavinum sínum á netið núna vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 og hefur því eftirspurn eftir heimkeyrslu aukist til muna ásamt því að Póstboxin eru vinsæl afhendingarleið segir í tilkynningunni. Kostir þessara þjónustuleiða eru sagðir miklir því þær lágmarki báðar útbreiðslu á COVID-19 veirunni eins og best verður á kosið.

Heimkeyrsla sé svo í boði víðsvegar um landið og er hún sögð efalaust góð leið til að lágmarka smithættu. Aðeins einn starfsmaður komi með sendingu og að Íslandspóstur leggi mikla áherslu á að öryggi við afhendingu sé í fyrirrúmi.

„Við höfum einnig tekið upp fyrirkomulag sem gerir viðskiptavinum í sóttkví eða einangrun mögulegt að taka við sendingum án þess að starfsmaður Póstsins hitti viðkomandi. Það eina sem þarf að gera er að hafa samband við okkur og við getum þá gripið til viðeigandi ráðstafana varðandi afhendingu. Við hvetjum alla viðskiptavini okkar að skoða þessi mál betur á posturinn.is/snertlaust,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

„Við hjá Póstinum viljum einnig benda á að Póstbox eru án efa sú leið sem er öruggust og best að nota til að nálgast sendingar á höfuðborgarsvæðinu eins og staðan er í dag. Öll samskipti og greiðsla fara fram rafrænt og viðskiptavinir fá SMS þegar sending er tilbúin til afhendingar. Póstbox eru einföld og þægileg í notkun en hægt er að fyrirframskrá að fá sendingar frá útlöndum í Póstbox á minnpostur.is og þá bjóða flestar innlendar netverslanir upp á möguleikann að senda beint í Póstbox.“

Sesselía Birgisdóttir, Íslandspóstur
Sesselía Birgisdóttir, Íslandspóstur

Sesselja segir félagið strax vera farið að sjá töluverða aukningu í netverslun og félagið búist við að sjá jafnvel enn meiri aukningu á komandi vikum.

„Heimkeyrslan okkar er gríðarlega öflug þjónusta sem getur hjálpað mikið í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu. Við teljum að heimkeyrsla sé í lykilhlutverki nú þegar landsmenn verja meiri tíma heima og forðast fjölmenni. Þá höfum við talað fyrir kostum Póstboxa áður en nú sem aldrei fyrr sýnir sig hve mikilvæg þau eru í raun og veru,“ segir Sesselja.

„Með því að nýta sér þessa leið erum við að taka öll samskipti þar sem tvær manneskjur hittast úr jöfnunni og þar með lágmarka smithættu eins mikið og hægt er. Við teljum Póstbox vera eina af lykilbreytum í afhendingarlausnunum okkar núna sem og til framtíðar, í raun má segja að þau sýni og sanni gildi sitt enn frekar á svona stundu. Við hvetjum því alla viðskiptavini okkar að kynna sér Póstboxin sem og heimkeyrsluna okkar en við viljum leggja okkar að mörkum á þessum óvenjulegu tímum. Við ætlum okkur svo sannarlega að þjónusta viðskiptavini okkar vel en umfram allt viljum við veita eins örugga þjónustu og við mögulega getum.”