Innlendir bændur og afurðastöðvar sækja í sig veðrið í innflutningi kjöts frá ríkjum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekenda .

„Aðilar í íslenskum landbúnaði  hafa fengið úthlutað tæplega helmingi, eða 47,5%, af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir kjöt á seinni hluta ársins samkvæmt tollasamningi Íslands og ESB. Þessi fyrirtæki munu flytja inn tæplega 91% tollkvótans í svínakjöti og tæplega 60% í alifuglakjöti, eins og sjá má í töflunni hér að neðan," segir í fréttinni á vef félagsins.

„Samkvæmt niðurstöðum útboðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á tollkvóta fyrir seinni helming ársins fá innlendir bændur og afurðastöðvar úthlutað samtals 647,3 tonnum af 1.363 tonna tollkvóta. Þetta er talsverð aukning frá fyrri helmingi ársins, en þá fengu aðilar í innlendum landbúnaði úthlutað 573,5 tonnum, sem samsvaraði 41% tollkvótans."

Taka ekki mark á eigin hræðsluáróðri

„Þessar tölur staðfesta enn og aftur að þeir innlendu bændur og afurðastöðvar, sem hér um ræðir, taka í raun ekki mark á hræðsluáróðri gegn innfluttu kjöti, sem þó er stundum borinn fram í þeirra nafni,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það er orðið tímabært að þessir aðilar hætti tvískinnungnum og taki höndum saman við aðra innflytjendur kjöts frá Evrópusambandsríkjunum um að tryggja matvælaöryggi og hagstætt rekstrarumhverfi í frjálsum búvöruviðskiptum á milli Evrópulanda.“