Tekjusamsetning tveggja stærstu fjarskiptafyrirtækja landsins – Símans og Fjarskipta (hér eftir Vodafone) – hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár. Tekjustoð­ ir félaganna eru margvíslegar, en þjónusta þessara fyrirtækja nær til farsíma, talsíma, internetsins, upplýsingatækni, sjónvarps, vörusölu auk annarra þátta. Þannig hafa nær allar tekjustoðir félaganna skroppið saman, að undanskildum tekjum frá netþjónustu og sjónvarpsþjónustu, sem aukið hafa vægi sitt í heildartekjum.

Rekstrartekjur Símans námu 29,6 milljörðum króna árið 2016. Hlutur farsímaþjónustu í rekstrartekjum var 24,3% og sjónvarpsþjónustu 13,7%. Árið 2014 voru tekjur Símans 30,3 milljarðar. Hlutdeild farsímaþjónustu í heildartekjum var 27% og sjónvarpsþjónustu 11,9%. Árið áður var vægi sjónvarpsþjónustu 11,4%. Á þremur árum hefur hlutur þeirrar þjónustu aukist um 21% á meðan hlutur farsímaþjónustu hefur minnkað um meira en 10%.

Svipaða sögu er að segja af þró­ uninni í tekjusamsetningu Vodafone. Aðgreining tekjustoða nær lengra aftur í ársreikningum Vodafone heldur en hjá Símanum. Í fyrra voru heildartekjur Vodafone 13,7 milljarðar króna. Hlutur farsíma­ þjónustu var 33% og sjónvarps­ þjónustu 14,5%. Fimm árum áður voru heildartekjurnar 12,9 milljarðar. Hlutur farsímaþjónustu var 44,4% og sjónvarpsþjónustu 6,6%. Vöxturinn í vægi sjónvarpsþjónustu nemur því tæplega 120% á fimm árum, á meðan vægi farsímaþjónustu hefur dregist saman um rúmlega fjórðung.

Þó svo að hlutdeild sjónvarps­ þjónustu í heildartekjum hjá Símanum og Vodafone sé enn undir 15% vekur þessi þróun engu að síður athygli. Tekjur á farsímamarkaði, sem hefur verið stærsti tekjupóstur fjarskiptafélaganna undanfarin ár, eru að minnka á meðan tekjur af sjónvarpsþjónustu eru að aukast. Af hverju eru tvö stærstu fjarskiptafélög landsins að hasla sér völl á sjónvarpsmarkaði, þar sem þau keppa við fjölmiðlafyrirtæki, sjónvarpsstöðvar og erlenda aðila, og hvernig mun markaðurinn þróast á komandi árum?

Alþjóðleg þróun í neyslu og tækni

Segja má að Ísland hafi stokkið yfir tvö tækniskref – kapalkerfisvæð­ ingu og gervihnattavæðingu – á sjónvarpsmarkaði á undanförnum tuttugu árum. Þess í stað var ráð­ist í uppbyggingu á gagnvirku sjónvarpi (IPTV kerfi), sem fór ört stækkandi upp úr 2003. IPTV kerfi er sjónvarp sem dreift er með fastri nettengingu og er enn fremur lokað dreifikerfi þar sem hægt er að takmarka aðgang þeirra sem ekki eru með aðgang að viðkomandi kerfi. Sú uppbygging hefur skapað sérstöðu á íslenskum sjónvarpsmarkaði sem felst í útbreiðslu á gagnvirku sjónvarpi.

Samkvæmt skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um tölfræði íslenska fjarskiptamarkaðarins á fyrri helmingi ársins 2016 var fjöldi IPTV áskrifta á Íslandi 97.929 og fjöldi internettenginga 124.955. Hlutdeild Símans í IPTV áskriftum var 56,1%, Vodafone 37,8% og 365 6%. Útbreiðsla IPTV til íslenskra heimila var 70% árið 2014 og er vægi fjarskiptafyrirtækja við dreifingu sjónvarpsefnis hér á landi gríðarlega mikið og mun meira en þekkist annars staðar í Evrópu. Þessi IPTV uppbygging hefur gert fjarskiptafélögum kleift að taka meiri þátt á sjónvarpsmarkaði heldur en annars staðar undanfarin ár.

Þó koma fleiri þættir til sem útskýra aukið vægi sjónvarpsþjónustu í fjarskiptarekstri.

„Farsímatekjur hafa skroppið saman. Við erum búin að ná hámarks taltíma í farsímaþjónustu. Fólk notar farsíma meira og notar meira gagnamagn, en talar minna í símann. Þar að auki hefur verð í farsímaþjónustu verið að lækka á heimsvísu,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Önnur ástæða fyrir þróuninni er breytt neyslumynstur almennings á alþjóðavísu. „Línulegt sjónvarp – áhorf á þeim tíma sem dagskrárliður er sendur út – hefur náð hámarki og fer minnkandi. Eftirspurn fólks eftir því að vera eigin dagskrárstjórar hefur aukist. Fólk kýs að nálgast sjónvarpsefni á netinu. Þegar tækni og efni verða samtengdari verða til tækifæri fyrir fjarskiptafélög í dreifingu og efnisveitu. Þessi þróun er í sókn á alþjóðavísu. Samkeppnisumhverfið er líka gjörbreytt og eru keppinautar ekki lengur innlendir heldur einnig alþjóð­ legir,“ segir Orri, og vísar hann til samkeppni frá svokölluðum „over the top“ (OTT) leikendum sem selja þjónustu sína ofan á kerfum annarra í gegnum internetið, t.d. Netflix, Hulu, Google og Apple.

Mikilvægi þess að aðgreina vöru- og þjónustuframboðið frá innlendri og erlendri samkeppni hefur því aukist og hafa Síminn og Vodafone sótt á sjónvarpsmarkaðinn í þeim tilgangi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .