Ísfélag Vestmannaeyja, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands, hagnaðist um u.þ.b. 440 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaðurinn dróst saman um tæpan 1,8 milljarð, eða 80% frá fyrra ári, samkvæmt ársreikningi félagsins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Neikvæður gengismunur upp á tæpar 9 milljónir dollara, sem nemur tæpum milljarði króna, hefur mikli áhrif á afkomuna. Gengismunur ársins 2016 var jákvæður upp á rúmlega 2 milljónir dollara.

EBITDA-framlegð félagsins lækkaði úr 32,7% árið 2016 niður í 24,9% árið 2017.

Tölurnar miðast við samstæðu Ísfélagsins. Félagið á meðal annars dótturfélögin Fiskmarkað Þórshafnar, Jupiter Shipping og Iceland Pelagic.

Rekstrartekjur félagsins drógust saman um 5,3 milljónir dollara og rekstrargjöldin jukust úr 73,3 milljónum dollara í 77,8 milljónir dollara milli ára.

Eignir félagsins námu rúmlega 293 milljónum dollara og eigið fé var 139 milljónir dollara í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var 47,3%.