„Ísland á heimsmet í fjölda heimila með sjónvarp yfir netið. 75% íslenskra heimila nýta gagnvirkt sjónvarp,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, þegar hann lagði áherslu á hve framarlega Ísland stendur í fjarskiptum. Hann setti 25. ráðstefnu Fjarskiptafélaga smárra ríkja á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu í dag.

„Ég tel að Ísland sé tilvalið til að prófa nýjungar á fjarskiptamarkaði, en er um leið viss um að það eigi líka við um markaðina sem þið starfið á,“ sagði hann. Um 40 fulltrúar hátt í tuttugu fyrirtækja frá fjórtán ríkjum ræða á ráðstefnunni stöðu og þróun fjarskipta. Ráðstefnan er haldin er árlega og í annað sinn hér á landi af Símanum sem einmitt ruddi braut gagnvirks sjónvarps hér á landi.

„Viðskiptaumhverfi fjarskiptafyrirtækja er mjög alþjóðlegt og á þeim markaði starfa risar í fjarskiptaþjónustu.. Mörg fyrirtæki hér sjá fram á álíka ógnanir og tækifæri. Það er því mikilvægt að læra af öðrum,“ sagði Bjarni og benti á að Ísland hafi mælst með næst öflugustu fjarskiptainnviðina á heimsvísu í fyrra.

„Við erum ánægð að hafa verið svo ofarlega á listanum en trúum því líka að það gefi okkur færi á að bæta okkur,“ sagði hann og vitnaði þar í niðurstöðu sérhæfðrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna í upplýsinga- og fjarskiptatækni, ICT um framþróun fjarskiptavísitölunnar sem kom út í nóvemberlok 2016.

98% landsmanna nota netið reglulega

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir ráðstefnuna gefa áhugaverða innsýn inn stöðu fjarskiptafélaga með svipaðan bakgrunn og Síminn hefur hér heima að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Breytingarnar eru hraðar í fjarskiptum og félög eins Síminn fjárfesta ört þessi misserin. Mikilvægt er að geta deilt reynslunni milli landa til að taka réttar ákvarðanir í þágu viðskiptavina. Íslendingar eru kröfuharðir og við viljum veita þeim bestu þjónustu sem finnst á byggðu bóli.“

Bjarni benti á í opnunarræðu sinni að 98% landsmanna noti netið reglulega og mikið, bæði með fartölvum og snjalltækjum. „Ef ég hefði spurt ykkur hvað Póstur og Sími gerði fyrir þrjátíu árum hefðuð þið getað sagt mjög nákvæmlega allt um það. Nú hafa færri en fleiri slíka yfirsýn. Breytingar fjarskiptafélaga hafa verið það miklar síðustu ár,“ sagði hann.

Á ráðstefnunni sitja fulltrúar frá Álandseyjum, Andorra, Grænhöfðaeyjum, Kýpur, Færeyjum, Gíbraltar, Guernsey, Grænlandi, Mön, Jersey, Lúxemborg, Möltu, Súrínam, Mónakó og Íslandi.