„Það sem Ísland hefur fram yfir mörg önnur lönd er að álframleiðslan er mjög græn því notuð er endurnýjanleg orka við framleiðslunni og losunin því margfalt minni en tíðkast víðast hvar utan Íslands. Orkan er líka tiltölulega ódýr. Hvort tveggja er mjög mikilvægt,"  segir Will Savage, formaður bresku álsamtakanna Aluminium Federation, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Í heiminum eru framleidd um 60 milljón tonn af áli á ári," segir Savage. „Helmingur framleiðslunnar er í Kína. Þó mörg álveranna þar séu ný kemur orkan að langmestu leyti frá kolaorkuverum og því er framleiðslan ekki græn. Ísland hefur því  forskot á Kína að þessu leyti og mörg önnur lönd sem framleiða ál.

Staða Íslands er því mjög góð að mörgu leyti en það sem hefur ekki verið gert er að framleiða verðmætari vörur með því að fullvinna ál. Það sem kemst næst því að vera fullunnin vara til útflutnings eru álvírarnir," segir hann og vísar til þess að í stærsta álveri landsins, Fjarðaáli, eru framleiddir vírar fyrir háspennustrengi.

„Kostirnir við að fullvinna ál eru margir. Fullvinnsla áls skapar ný störf. Hún eykur einnig sérkunnáttu starfsfólks og skapar auðvitað verðmæti. Arðurinn eykst og einnig tekjur hins opinbera vegna skattheimtu. Hér er langstærsti hluti áls fluttur á erlenda markaði og í því felst ónýtt tækifæri að flytja út fullunnar vörur og skilja þar með stærri hluta virðisaukans eftir í landinu. Í Mið-Austurlöndum hefur álframleiðsla aukist mikið undanfarin ár og þar hefur einmitt mikil áhersla verið lögð á fullvinnslu."

Dýr tæki og hæft starfsfólk

Savage segir að fullvinnslunni fylgi líka ýmsar áskoranir. Til dæmis geti verið erfitt að fá hæft starfsfólk, sérstaklega ef atvinnustigið í landinu sé mjög hátt.

„Nýjar verksmiðjur og sérhæfð tæki og búnaður er líka dýr. Til þess að hefja framleiðslu á nýrri vöru úr áli þarf þarf því augljóslega töluvert fjármagn. Stofnkostnaðurinn getur verið mjög hár — nokkur hundruð milljónir dollara. Sem dæmi kostar valsaverksmiðja (e. Rolling mill), sem framleiðir 100 þúsund tonn á ári um 250 milljónir evra (30 milljarða króna)."

Spurður hvers konar fullvinnslu hann sjái fyrir sér á Íslandi svarar Savage: „Þó ég hafi talað um að stofnkostnaður geti verið mjög hár er líka hægt að fara í ódýrari framleiðslu. Ég get tekið sem dæmi álfelgur fyrir bíla. Bílaframleiðsla er sífellt að aukast og flestir bílar eru í dag með álfelgum. Eftirspurnin er því mjög mikil. Álfelgur er annað hvort steyptar í móti (e. cast) eða smíðaðar (e. forged). Flestir bílar hafa steyptar álfelgur og fyrir tiltölulega litla fjármuni er hægt að reisa mjög fullkomna verksmiðju sem framleiðir tvær milljónir steyptra álfelgna á ári. Ég myndi áætla að kostnaðurinn við byggja slíka verksmiðju sé um 70 milljónir dollara (7,9 milljarðar króna).

Álver víða um heim hafa reist sérhæfðar verksmiðjur til áframvinnslu á áli. Oft er reyndar um að ræða samstarf við önnur fyrirtæki. Hagræðið af þessu er augljóst því álverin framleiða náttúrlega ál. Í steyptar álfelgur er notað brætt ál. Ef verksmiðjan er við hliðina á álverinu þá er hægt að flytja það með einföldum hætti og hella því í mótin í stað þess að þurfa að breyta fljótandi áli í fast efni, flytja það lengri leið, og bræða aftur til þess hella í mótin. Þó svo að ég velti þessu upp er alls ekki útilokað að fyrirtæki ótengt álverunum fullvinni ál á Íslandi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .