Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu vísar til funda SVÞ með ráðamönnum Costco þar sem þeir hafa verið að forvitnast um líkur á auknu frjálsræði hér á landi í landbúnaðar- og áfengissölumálum.

Ræðst af nýju þingi

„Það auðvitað ræðst af því hvernig ný ríkisstjórn verður samansett, en reynslan sýnir að skoðanir manna hafa gengið þvert á flokkslínur. Það var bara einn flokkur sem var alveg á móti, en annars var engin hrein lína.

Ég hef bara fulla trú á því að það verði gengið til atkvæða um þetta frumvarp á nýju kjörtímabili og það myndi fara í gegn,“ segir Andrés um losun á ríkiseinkasölu á áfengi, en hann segir verslunina tilbúna að taka tillit til lýðheilsusjónarmiða.

Frjálsri verslun treystandi fyrir að selja vöruna

„Það er ekki nokkrum vafa undirorpið að áfengi er hættuleg vara og umdeild en við segjum að úr því að versluninni er treyst fyrir því að selja aðrar hættulegar vörur, þá hlýtur hinni frjálsu verslun að vera treystandi fyrir að selja þessa vöru.

Það er bara að búa til rammann en maður getur alveg séð fyrir sér að byrja á bjór og léttvíni, og stíga svo bara skrefið áfram. Það má sjá fyrir sér búð í búð fyrirkomulag, eða í einhvers konar lokuðu rými eins og í Noregi, þar sem er dregið fyrir bjórinn og ekki má selja hann eftir ákveðinn tíma á kvöldin og svo framvegis.

Þetta eru allt útfærsluatriði en það eru engin rök fyrir því að halda þessu kerfi svona, því ég held að samkeppnin muni alltaf tryggja að við fáum áfram gott úrval af vínum.“

Fara til Skandinavíu ef vel tekst hér á landi

„Það er merkilegt að næststærsta smásölufyrirtæki í heimi, Costco, þeir reyndar skilgreina sig sem heildsala, hafi tekið ákvörðun um að koma inn á þennan markað en þeir eru ekki að hugsa þetta bara fyrir þessar 330 þúsund hræður sem eru hér, heldur þennan 25-30 milljóna manna markað sem Skandinavía er, það er alveg pottþétt.

Það hefur komið alveg skýrt fram á þessum fundum með Costco að þeir eru að nota Ísland sem tilraunamarkað og ef að vel tekst til hér þá munu þeir fara inn á Skandinavíumarkað,“ segir Andrés.

„Við erum þriðja eða fjórða landið í Evrópu, en nú eru þeir í Bretlandi, svo opnuðu þeir í Sevilla á Spáni fyrir tveimur árum og það stendur til að opna í Frakklandi. Þeir eru þegar orðnir félagsmenn hjá okkur."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .