Í dag tekur skipulag Íslandsbanka breytingum og munu þrjú tekjusvið þjóna viðskiptavinum; Einstaklingar, Viðskiptabanki og  Fyrirtæki og fjárfestar. Markmið breytinganna er að sníða skipulag bankans að breyttum þörfum viðskiptavina og bjóða betri bankaþjónustu að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka.

Vegna ofangreindra breytinga mun starfsmönnum fækka um 20 en breytingarnar eru sagðar styrkja stöðu bankans með tilliti til umfangsmikilla breytinga á regluverki og örrar tækniþróunar.  Hlutverk Einstaklingssviðs er að veita viðskiptavinum alhliða fjármálaþjónustu í gegnum rafrænar dreifileiðir og nútímalegt útibúanet um land allt segir tilkynningin jafnframt.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir er nýr framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka og mun leiða Einstaklingssvið bankans. Sigríður er lögmaður með MBA próf Copenhagen Business School. Hún hefur starfað frá árinu 2014 sem framkvæmdastjóri smásölusviðs Olíuverzlunar Íslands.

Viðskiptabanki þjónustar lítil og meðalstór fyrirtæki í útibúum bankans, þar sem sérfræðingar í fyrirtækjaþjónustu veita alhliða fjármálaþjónustu. Ergo, fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka er jafnframt hluti af Viðskiptabankasviði. Framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs er Una Steinsdóttir .

Á sviðinu Stór fyrirtæki og fjárfestar verður veitt heildstæð fjármálaþjónusta fyrir fjárfesta og stærstu fyrirtæki landsins sem felst meðal annars í lánveitingum, miðlun verðbréfa og gjaldeyris, fyrirtækjaráðgjöf, einkabankaþjónustu og sölu áhættuvarna. Framkvæmdastjóri sviðsins er Vilhelm Már Þorsteinsson .

VÍB eignastýring mun færast yfir á tekjusviðin og í dótturfélag bankans, Íslandssjóði. Jafnframt verður áherslubreyting á greiningarstarfi en áfram verður starfandi aðalhagfræðingur sem mun bera ábyrgð á þjóðhagsgreiningu bankans.

Birna Einarsdóttir , bankastjóri Íslandsbanka segir öllum fyrirtækjum hollt að fara í gegnum skipulagsbreytingar. „Á undanförnum árum höfum við verið að einfalda bankaviðskiptin og nú einföldum við og aðlögum skipulag bankans að breyttu umhverfi,“ segir Birna.

„Með þessum breytingum blæs bankinn til sóknar og treystir undirstöður fyrir aukna skilvirkni. Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við viðskiptavini okkar þar sem við munum einblína á enn betri þjónustu í nýju og einfaldara skipulagi.“