Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 5 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi ársins 2017 samanborið við 9,5 milljarða á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi var 11,8% á fjórðungnum samanborið við 13,3% á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur voru 7,8 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi ársins 2017 samanborið við 8,4 milljarða króna og vaxtamunurinn var 3% samanborið við 3,3% á sama tímabili árið áður. Hreinar þóknunartekjur bankans námu 3,5 milljarðar króna og héldust stöðugar milli ára.

Samdráttur á fyrsta helmingi ársins

Hagnaður bankans eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2017 nam 8 milljörðum króna — hagnaðurinn nam 13 milljörðum árið áður — og dregst hann því talsvert saman á milli ára. Munurinn á milli ára skýrist af einskiptishagnaði af sölu Borgunar á hlutum í Visa Europe á fyrsta helmingi ársins. Arðsemi eigin fjár bankans lækkar á milli ára en á fyrri helmingi ársins 2016 var arðsemi eigin fjár 12,9% en er nú 9,2% á fyrri helmingi ársins 2017.

Hagnaður bankans af reglulegri starfsemi var 7,4 milljarðar samanborið við 8 milljarða á fyrri árshelmingi árið 2016. Hreinar vaxtatekjur bankans námu 15,2 milljörðum króna á fyrri árshelmingi 2017 og lækka um 4% á milli tímabila. Hreinar þóknunartekjur voru 6,8 milljarðar og drógust saman um 2% á milli ára.

Útlán til viðskiptavina jukust um 4,9% á tímabilinu eða um 34 milljarða króna. Ný útlán hjá bankanum voru 108 milljarðar króna og dreifðust vel milli viðskiptaeininga bankans. Heildareignir Íslandsbanka voru 1.047 milljarðar króna í lok tímabilsins og voru útlán til viðskiptavina og lausafjársafn samtals 97% af stærð efnahagsreiknings.

Framsæknar skipulagsbreytingar

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir við tilefnið: „Fyrstu sex mánuðir ársins voru viðburðaríkir í rekstri bankans. Útlán til viðskiptavina jukust um 4,9% frá áramótum en sú aukning kemur frá öllum viðskiptavinahópum. Á sama lækkaði vanskilahlutfall í 1,2% úr 1,8% frá árslokum 2016. Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar má taka fram að lánveitingar til fyrirtækja í útibúaneti bankans eru 40% til fyrirtækja á landsbyggðinni en það hlutfall hefur verið að aukast undanfarin ár. Góður gangur er í fjárfestingarbankastarfsemi og vann fyrirtækjaráðgjöf að mörgum áhugaverðum verkefnum á tímabilinu. Meðal annars var veitt ráðgjöf vegna fyrirhugaðs samruna Iceland Travel og Gray Line og vegna sölu á Icelandic Gadus. Traustur grunnrekstur skilar bankanum hagnaði upp á 7,4 milljarða eftir fyrstu sex mánuði ársins sem er 11,2% arðsemi af reglulegum rekstri og er það lítillega yfir væntingum. Við kynntum framsæknar skipulagsbreytingar með það að markmiði að gera skipulag bankans að fullu viðskiptavinamiðað.

Í september klárast flutningar í nýjar höfuðstöðvar en þá verður öll starfsemi bankans undir einu þaki en því fylgir mikið kostnaðarhagræði. Nú þegar prentar starfsfólk helmingi minna en mikil áhersla hefur verið lögð á að draga úr pappírsnotkun í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi. Ég er þess sannfærð að með slagkrafti sameinaðra höfuðstöðva sé Íslandsbanki kominn í gott keppnisform. Annað og öðruvísi kapphlaup er þó framundan á laugardaginn þegar Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram. Skráningar hafa aukist frá fyrra ári en það er von okkar að þessi stærsta fjáröflun landsins slái ný met í áheitum til góðgerðarfélaga enn eitt árið".