Stjórnendur Íslandsbanka hafa sagt upp tuttugu manns. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru uppsagnirnar hluti af hagræðingaraðgerðum sem bankinn hefur staðið í undanfarið en fyrir tæpum tveimur mánuðum var einnig 20 starfsmönnum sagt upp. Var tilkynnt um þær uppsagnir á sama dag og Arion banki sagði um 100 manns upp störfum vegna hagræðingaraðgerða .

Meirihluti þeirra starfsmanna sem missa nú vinnuna hjá Íslandsbanka hafa starfað í höfuðstöðvum bankans í Norðurturninum í Kópavogi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ná uppsagnirnar yfir mörg svið bankans.

Frá síðustu áramótum hefur ársverkum í Íslandsbanka fækkað um 70. Hjá Arion banka hefur ársverkum fækkað um 102 það sem af er árinu og hjá Landsbankanum hefur ársverkum fækkað um 16.

Á árinu 2018 voru flestar uppsagnir hjá Landsbankanum en á því ári fækkaði ársverkum í bankanum um 78. Til samanburðar fækkað ársverkum hjá Arion banka um 50 árið 2018 og hjá Íslandsbanka fækkaði ársverkum um 27.