Greining Íslandsbanka spáir kröftugum hagvexti í ár eða 4,9%. Á næsta ári spáir bankinn hagvexti upp á 5,1%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Þjóðhagsspá Íslandsbanka .

Er þetta meiri hagvöxtur en mælst hefur hér á landi um árabil. Þó er reiknað með hægari hagvexti árið 2018 eða 3%. „Landsframleiðsla á mann hefur aukist töluvert og mælist nú mikil í alþjóðlegum samanburði. Jafnframt hafa þættir í afkomu heimila þróast með hagfelldum hætti og stutt við vöxt einkaneyslu. Má þá helst nefna kaupmátt launa, störfum hefur fjölgað og atvinnuleysi hjaðnað. Spáir Greining Íslandsbanka því að þessi hagfelda þróun haldi áfram“ segir í greiningu Íslandsbankans.

Atvinnuleysi minnkar áfram

Í greiningu bankans kemur einnig fram að atvinnuleysi hafi minnkað samfara vaxandi umsvifum í hagkerfinu. Því sé auknum hluta af vinnuaflsþörf mætt með innflutningi á vinnuafli, sem skýrir nokkuð hraða fólksfjölgun.

Íslandsbanki spáir því að áfram dragi úr atvinnuleysi og það fari niður í 3,1% úr 4% í fyrra, verði svo 2,7% á næsta ári og 2,5% þar á eftir.

Aukin fjármunamyndun

„Verulega hefur bætt í fjármunamyndun í hagkerfinu undanfarin misseri, og er hún nú komin í takt við það sem eðlilegt má teljast í þróuðu hagkerfi. Við gerum ráð fyrir að fjármunamyndun aukist um 21,3% á yfirstandandi ári frá fyrra ári. Árið 2017 spáum við 7,2% vexti fjárfestingar, og árið 2018 verður vöxturinn 0,6% að okkar mati“ segir í greiningu bankans.

Hingað til hefur ört atvinnuvegafjárfesting haft hvað mest áhrif á aukna fjármunamyndun undanfarinn. Tengist þessi þróun vexti ferðaþjónustu beint eða óbeint.

Bankinn spáir því að atvinnuvegafjárfesting aukist enn og gerir ráð fyrir 5,9% vexti slíkrar fjárfestingar, en 1,6% samdrætti árið 2018.

Verð á íbúðarhúsnæði hækki enn

Í spá bankans kemur fram að talið sé að verð á íbúðarhúsnæði hækki um 8,5% í ár og 9,7% á næsta ári og svo um 6,6% á árinu 2018. Vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna og lýðfræðilegir þættir ásamt örum vexti ferðaþjónustu og takmörkuðu framboði nýbygginga mun þrýsta verði upp að mati Íslandsbanka. „un raunverð íbúðarhúsnæðis hækka um 6,9% í ár, 8,0% á næsta ári og um 3,4% á árinu 2018“ segir einnig.

Þá kemur einnig fram að „útflutningur sjávarafurða mun taka við sér á spátímanum. Við spáum ríflega 4% aukningu í útflutningi sjávarafurða á næsta ári, og rúmlega 3% aukningu árið 2018. Hins vegar verður lítill vöxtur í útflutningi afurða orkufreks iðnaðar á spátímanum, enda hafa tafir og óvissa einkennt uppbyggingu í þeim geira.“

Hægt er að rýna nánar í spá Íslandsbanka hér .