Kínverska flugfélagið Juneyao Air hyggst hefja flug frá Shanghaí til Íslands næsta vor. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun en samkvæmt heimildum blaðsins er áætlað að félagið fljúgi frá borginni Shanghaí til Íslands með viðkomu í Helsinki, allt að þrisvar í viku.

Einnig er greint frá því að fleiri kínversk flugfélög séu að skoða Íslandsflug. Tinajin Airlines hefði sótt um þrjá afgreiðslutíma í hverri viku á Keflavíkurflugvelli fyrir komandi vetur, en þeim áformum hafi verið seinkað til næsta árs. Þá hafi tvö önnur kínversk flugfélög Íslandsflug til skoðunnar; annars vegar ríkisflugfélagið Air China, sem er langstærsta flugfélag Kína, og hins vegar Beijing Capital Airlines, sem er í eigu kínverska flugrisans Hainan Airlines.

„Heimildarmenn Fréttablaðsins telja líklegra að áform Air China verði að veruleika en Beijing Capital Air­lines. Kannar Air China nú möguleika á flugi frá höfuðborginni Peking til Íslands með viðkomu í Kaupmannahöfn,“ segir enn fremur í frétt Fréttablaðsins.