Íslenskir ríkisborgarar sem velja að fara í skimun við komu til landsins munu þurfa að fara í sóttkví í 4-5 daga og að því loknu fara aftur í skimun. Sem fyrr verður hægt að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða skimunar á landamærum. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Fram kemur í minnisblaði sóttvarnarlæknis að reynslan af skimun á landamærum haf leitt í ljós hættu á því að einstaklingar sem hafa smitast nýlega beri með sér smit sem greinist ekki við landamæraskimun en komi fram síðar. Sóttvarnarlæknir telur að tilvik sem þessi skapi hættu á hópsmitum og þá sérstaklega þegar í hlut eiga einstaklingar með útbreitt tengslanet hér á landi.

Þess vegna leggur hann til að breyttar reglur um skimun taki ekki til almennra ferðamanna heldur verði bundnar við íslenska ríkisborgara og aðra sem eru búsettir hér á landi.

Að auki kemur fram á vef Stjórnarráðsins að takmörkunum á samkomum verða óbreyttar næstu þrjár vikurnar, til 26. júlí. Fjöldatakmörk munu því áfram miðast við 500 manns og opnunartími spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi verður einnig óbreyttur og heimilt að hafa opið til 23.00 á kvöldin.