Það er óhætt að segja að veðurblíðan hafi leikið við landsmenn undanfarið. Veðrið hefur verið afar hlýtt og sólin hefur látið mun oftar sjá sig heldur en síðasta sumar. Samkvæmt þeim Pálma Jónssyni, framkvæmdastjóra og einum af eigendum Emmesíss, og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, markaðsstjóra og einum af eigendum Kjöríss, hafa ansi margir Íslendingar lagt leið sína í ísbúðir landsins í góðviðrinu og hefur því íssala hér á landi verið í miklum blóma undanfarið.

„Íssalan hefur gengið vonum framar og það er auðvitað að hluta til því að þakka hversu gott veðrið hefur verið því það er mikil fylgni milli sólarstunda og íssölu,“ segir Pálmi Jónsson. „Við höfum séð góðan vöxt milli ára og sölutölur í maí sýna um 20% aukningu milli ára. Maður vill nú ekki gefa sólinni allt saman en það er augljóst að Íslendinga langar í ís þegar veðrið er gott. Ísinn virðist koma fólki í gott skap eða þá að fólk vill fá sér ís þegar það er í góðu skapi,“ bætir hann við.

Guðrún Hafsteinsdóttir segir að íssalan hjá Kjörís hafi verið mjög góð í sumar. „Þetta er búið að vera algjör gósentíð fyrir íssala og allt annað heldur en í fyrra. Við höfum fundið fyrir mikilli aukningu, rétt um 20%, og er sú aukning líklega til komin út af því hversu gott veðrið hefur verið. Svona viljum við hafa sumarið!“

Síðasta sumar var óvenjuslæmt

Síðasta sumar var veðurfarið hér á landi með eindæmum rigningarsamt. Í maímánuði í fyrra var úrkoma í Reykjavík til að mynda sú mesta síðan mælingar hófust og afar lítið sást til sólar allt sumarið.

Pálmi segir að óneitanlega hafi veðurfar áhrif á sölu. „Við fundum fyrir því að síðasta sumar var óvenjuslæmt en þó kom það í heildina mun betur út heldur en við bjuggumst við. Við sjáum hins vegar fram á að þetta sumar verði mun betra.“

Guðrún tekur í sama streng og segir að síðasta sumar hafi ekki verið til að hrópa húrra fyrir. „Í fyrra var staðan allt önnur hjá okkur við fundum vel fyrir að veðrið væri kalt og blautt. Því er líklegt að fólk hafi heldur viljað drekka heitt kakó heldur en að gæða sér á ís,“ bætir hún við.

Bjartsýn á sumarið

„Þegar sumarið byrjar svona frábærlega og ef salan gengur jafn vel og raun ber vitni þá hefur hún tilhneigingu til að haldast góð út sumarið,“ segir Guðrún. „Við erum bjartsýn á að íssalan þetta sumarið verði frábær.“

Að sögn Pálma hefur salan á árinu gengið vonum framar og segist hann bjartsýnn á að salan í sumar muni halda áfram að vera góð. „Það er augljóst að Íslendingar eru sólgnir í ís og ísinn kætir hvert mannsbarn. Við lítum björtum augum á komandi mánuði og vonumst til að fólk haldi áfram að fá sér ís.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslandspóstur skuldar Landsbankanum tæplega 3 milljarða króna.
  • Fjallað er um stöðu lífeyrissjóðanna.
  • Umfjöllun um stýrivaxtalækkun Seðlabankans.
  • Viðal við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair.
  • Fjallað er um fyrirtæki sem hyggst auðvelda kínverskum ferðamönnum á Íslandi lífið.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um ráðningarferlið í stöðu Seðlabankastjóra.
  • Óðinn skrifar um Borgarlínuna.