Með fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem opin var á árunum 2012 til 2015, komu ýmsir fjárfestar, bæði erlendir og innlendir, með fé inn í landið, alls 1,1 milljón evra. Fór 47% þessu fé í skuldabréf, um 40% í hlutabréf og 12% í fasteignir, en 43% fjárhæðarinnar kom frá innlendum fjárfestum meðan 57% komu frá erlendum fjárestum.

Stórtækasti fjárfestirinn voru bandarískir eigendur Íslenskrar erfðagreiningar, sem komu með um 9,3 milljarða króna til að fjármagna innlendan rekstur og fjárfestingar félagsins að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun kom félag Ólafs Ólafssonar jafnframt með um 2 milljarða, aðrir sem nefna má voru Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar sem komu með 5,1 milljarð. Féð var nýtt til að kaupa hluti í Bakkavör af íslenskum lífeyrissjóðum, svo í lok ársins 2012 voru þeir orðnir stærstu eigendur félagsins.

Nýtt í ýmis konar fjárfestingar

Actavis kom til að mynda með 988 milljónir til landsins til að fjárfesta í tækjabúnaði og endurfjármagna stækkun lyfjaverksmiðju félagsins. Einnig má nefna útgerðarfélagið Samherja, sem flutti 2,4 milljarða inn í landið á þennan hátt, í gegnum félagið Kaldbak, og voru fjármunirnir nýttir til að fjármagna kaup félagsins á 37,5% hlut í Olís sem og hlut í Jarðborunum.

Breska verslunarkeðjan Iceland flutti inn 160 milljónir til að fjármagna kaup á 37% hlut í íslensku Iceland versluninni. Einnig nýtti Bygma, danskur eigandi Húsasmiðjunnar, sér leiðina til að gefa út 10 ára skuldabréf fyrir um 1,4 milljarða króna, sem voru nýttir til að styrkja rekstur Húsasmiðjunnar.

Jafnframt var Jón S. von Tetzchner einn þeirra fjárfesta sem nýttu sér leiðina, en hann kom með 4,8 milljarða til landsins sem nýttir voru til að fjárfesta í fasteignum sem og í félögum eins og OZ, Budin.is, Hringdu og SmartMedia.

Ýmsir fjárfestar aðrir nýttu leiðina, má þar nefna Hjörleif Þór Jakobsson sem komu með 501 milljón króna til að kaupa í Hampiðjunni og Öryggismiðstöðinni, Karl Wernersson, sem flutti 240 milljónir til að kaupa fasteignir og aukið hlutafé í Lyf og heilsu, Heiðar Guðjónsson sem kom með 209 milljónir og Skúli Mogensen sem flutti 303 milljónir auknar fjárfestingar í Wow air og MP banka.

Aflandskrónueigendur veittu afsláttinn

Seðlabankinn hafði milligöngu um viðskiptin, sem voru á milli fjárfestanna og þeirra aflandskrónueigenda sem voru reiðubúnir að veita afslátt af krónum sínum, samkvæmt útboðsskilyrðunum. Nam afslátturinn allt að 30% í fyrstu útboðunum, en fór síðan lækkandi eftir því sem á leið svo hann var tæplega 10% í byrjun árs 2015.

Á sama tíma þurftu fjárfestarnir að koma með jafnmikla upphæð inn til landsins eftir hefðbundnum leiðum í gegnum gjaldeyrismarkaðinn.