Hampiðjan, Knarr Maritime og Sæplast eru meðal 195 fyrirtækja sem fá falleinkunn „F“ fyrir viðbrögð við stríðinu í Úkraínu á lista prófessors við bandaríska háskólann Yale School of Management.

Jeffrey Sonnenfeld og teymið hans hjá Yale segja á vef háskólans að listinn hafi vakið mikla athygli og fyrir vikið ratað inn á borð hjá stjórnum alþjóðlegra fyrirtækja. Teymið segist hafa fylgst með viðbrögðum yfir þúsund fyrirtækja og af þeim hafa fleiri en 750 opinberlega tilkynnt um starfsemi þeirra verði skert eða lögð niður í Rússlandi.

Fyrirtækjum er skipt upp í fimm flokka. Fyrirtæki sem fá falleinkunn eru sögð ganga gegn kröfum um að stöðva eða draga úr starfsemi í Rússlandi.

Á listanum segir að Hampiðjan haldi enn úti starfsemi í Rússlandi. Það sama eigi við um ákveðin fyrirtæki sem eiga aðild að markaðsfyrirtækinu Knarr maritime. Þá kemur fram að Sæplast hafi ekki opinberað viðbrögð við ástandinu.

Í næstneðsta flokknum eru 138 fyrirtæki sem fá einkunnina „D“. Þau hafa tímabundið hætt við nýjar fjárfestingar eða verkefni í Rússlandi. Þar er að finna Marel og Nuast Marine. Eimskip er í flokki C sem heldur utan um fyrirtæki sem hafa dregið úr starfsemi í Rússlandi.