Metfjöldi íslenskra fyrirtækja er nú staddur í Berlín á ITB ferðasýningunni sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. ITB hófst í gærmorgun í 53. sinn en hún er haldin árlega í byrjun mars í þýsku höfuðborginni Berlín. Allra jafna sækja hana um 170.000 gestir þar af um 110.000 fagaðilar. Auk þess að vera stærsta ferðasýning í heimi er ITB jafnframt einn stærsti vettvangur ráðstefna, funda og fræðslu um þróun og nýjungar í ferðaþjónustu á heimsvísu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.

Mikið líf og fjör var á Íslandsbásnum fyrsta sýningardaginn en það er Íslandsstofa sem annast skipulagningu Íslandsbássins á sameiginlegu norrænu sýningarsvæði ITB. Á Íslandsbásnum taka að þessu sinni 29 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og þrjár markaðs­stofur landshluta þátt undir merkjum Inspired by Iceland . Aldrei hafa fleiri íslenskir aðilar tekið þátt á Íslandsbásnum og eru yfir 100 Íslendingar á svæðinu. Meðal sýnenda á íslenska básnum eru ferðaskrifstofur, hótel, flugfélag og afþreyingar­fyrirtæki. Unnið er að markmiðum í íslenskri ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á að hvetja ferðamenn og erlenda ferðaheildsala til þess að kynna sér ferðaþjónustu um land allt, árið um kring með ábyrgð og öryggi að leiðarljósi. Allt markaðsstarf á vegum Íslandsstofu er unnið undir merkjum Inspired by Iceland . Bás Íslandsstofu er í sýningarhöll 18 og er númer hans 132C.

Íslenska forsetafrúin, frú Eliza Reid, heiðraði sýnendur og gesti Íslandsbássins með nærveru sinni á fyrsta degi ITB. Þá er íslenska forsetafrúin með inngangsávörp á ráðstefnum og fundum á vegum ráðstefnudeildar ITB og í sendiráði Íslands í Berlín. Forsetafrúin er sérlegur sendiherra ferðaþjónustu og markmiða sjálfbærrar þróunar hjá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) en það hefur vakið töluverða athygli á þýska markaðinum og víðar.

Í tengslum við ITB bauð Íslandsstofa í samráði við íslenska sendiráðið í Berlín fulltrúum sérvalinna þýskra fjölmiðla til viðburðar í bústað sendiráðsins þar sem frú Eliza Reid var heiðursgestur. Á fjölmiðlaviðburðinum var farið yfir áherslur í markaðssetningu á íslenskri ferða­þjónustu og hvernig ábyrgð og öryggi hafa verið sett í forgrunn í öllum markaðs­aðgerðum Íslandsstofu og samstarfsaðila úr íslenskri ferðaþjónustu í markaðsverkefninu Inspired by Iceland . Þá fór jafnframt fram kynning á íslenskum matvælum fyrsta sýningardag ITB þar sem gestum íslenska sýningarbássins var boðið að smakka íslenskan mat. Með því var vakin athygli á hágæða íslensku hráefni úr hreinu umhverfi sem ferðamenn geta notið í Íslands­ferðinni og hvernig matur getur orðið hluti af upplifun ferðamanna.