Íslensk verðbréf hafa undirritað samning um kaup á Viðskiptahúsinu. Kaupsamningurinn var gerður í kjölfar áreiðanleikakannana sem er lokið. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila og hluthafafundar Íslenskra verðbréfa sem haldinn verður 20. desember. Kaupin ná til allra félaga innan samstæðu Viðskiptahússins sem sinna ráðgjöf og þjónustu, einkum í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Markmiðið með kaupunum er að skapa sérhæft fjármálafyrirtæki í eignastýringu, miðlun og ráðgjöf með sérstöðu í staðsetningu utan höfuðborgarsvæðisins og atvinnulífssérhæfingu samkvæmt tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum.

Sigurður Atli Jónsson, stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa, segir fyrirtækin nú taka fyrsta skrefið að nýju sérhæfðu fjármálafyrirtæki sem byggir á sameiginlegum grunni félaganna í eignastýringu og atvinnulífssérhæfingu. „Við munum vinna út frá sameiginlegri stefnu um að byggja upp markaðsdrifið fyrirtæki sem veitir afburðar þjónustu á sviði ávöxtunar og fjármögnunar með áherslu á langtímasambandi við viðskiptavini,“ segir Sigurður Atli.

Jóhann M. Ólafsson, forstjóri og stofnandi Viðskiptahússins segir fyrirtækið hafi í tæp 20 ár unnið í nánum tengslum við flest sjávarútvegsfyrirtæki á landinu og fundið mörgum hverjum ný tækifæri. „Með sameiningu við Íslensk verðbréf gefst tækifæri til að nýta þekkingu og reynslu félaganna til að auka þjónustu okkar við viðskiptavini og fókus á að tengja saman atvinnulífið og fjárfesta með því að byggja upp öflugt, sérhæft og óháð fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar á Akureyri,“ segir Jóhann.

Íslensk verðbréf er sjálfstætt og sérhæft eignastýringafyrirtæki, með höfuðstöðvar á Akureyri og 18 starfsmenn. Viðskiptahúsið hefur frá árinu 1999 sérhæft sig í ráðgjöf til fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Starfsstöð Viðskiptahússins er í Kópavogi og eru starfsmenn átta talsins.