Íslenska ríkið á sér engar málsvarnir ef banni við innflutningi á fersku kjöti. Útflutningshagsmunir landsins gætu verið í óvissu verði breytingum frestað. Þetta kemur fram í minnisblaði Gizurs Bergsteinssonar, lögmanns hjá Lagastoð, sem hann vann fyrir atvinnuveganefnd Alþingis.

Ísland hefur dregið lappirnar í að aflétta frystiskyldu á innflutt kjöt hingað til lands en um innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu er að ræða. Í nóvember 2017 komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki staðið við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum.

Fyrr á þessu ári gaf ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, út rökstutt álit um að Ísland hefði ekki uppfyllt skyldu sína til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins í kjötmálunu. Fresturinn sem Ísland hafði til úrbóta rann út 13. apríl síðastliðinn.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram frumvarp sem afléttir frystiskyldunni og er það nú til meðferðar fyrir Alþingi. Frumvarpið hefur mætt töluverðri gagnrýni af hálfu landbúnaðarins og margra þingmanna sem telja að lýðheilsu og matvælaöryggi verði stefnt í voða með innflutningi á fersku kjöti.

Sem fyrr segir var minnisblaðið unnið að beiðni atvinnuveganefndar og voru tvær spurningar lagðar fyrir lögmanninn. Annars vegar hvaða áhrif það hefði að fresta gildistöku laganna og sé það yfirhöfuð hægt, hvernig væri hægt að útfæra það án þess að hafa skaðleg áhrif á íslenska hagsmuni.

„Verði frumvarp [ráðherra] ekki að lögum á [yfirstandandi þingi] eða gildistöku laganna frestað má gera ráð fyrir því að ESA muni án frekari fyrirvara stefna Íslandi fyrir EFTA-dómstólinn, enda væri það næsta skref í samningsbrotamálinu. [...] Ísland mun ekki hafa neinar málsvarnir í því máli,“ segir Gizur. Líklegt væri að dómur lægi fyrir í lok árs og þá Íslandi í óhag.

Gizur segir enn fremur að verði gildistökunni frestað muni það hafa „mikil og bein áhrif“ á útflutningshagsmuni Íslans þar sem útflutningur á kjöti og sjávarfangi héðan yrði í uppnámi.

„Afurðir frá Íslandi myndu teljast afurðir frá þriðja ríki og væru ekki lengur í frjálsu flæði innan EES. [...] Afleiðingarnar yrðu afdrifaríkar hvað varðar útflutning ferskra sjávarafurða frá Íslandi til aðildarríkja ESB,“ segir Gizur.

Þá liggur enn fremur fyrir dómur Hæstaréttar frá í október þar sem viðurkennd var skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna fyrirtækja hér á landi sem orðið hafa fyrir tjóni vegna ófullnægjandi innleiðingar á tilskipuninni. Verði ekki brugðist við dómnum er skaðabótaskylda ríkisins enn til staðar gagnvart öllum þeim sem reyna að flytja ferskar kjötvörur hingað til lands.

„Innflytjendur og aðrir sem vilja láta reyna á reglur um frystiskylduna geta því sótt skaðabætur til ríkisins að vild,“ segir Gizur.