MSCI hefur ákveðið að færa Ísland í flokk vaxtarmarkaða (e. frontier markets) en áætlað er að vægi Íslands í vísitölunni verði 5,24%. Þetta kemur fram í tilkynningu MSCI.

Í raun eru það tvö félög innan íslenska hlutabréfamarkaðarins sem munu vera skráð í vísitölu MSCI. Ekki er tekið fram hvaða tvö félög það eru þó líklegt sé að um er að ræða Arion banka og Marel.

Breytt afstaða MSCI, sem er eitt stærsta vísitölufyrirtæki heims, má rekja til breytingu á innflæðishöftum erlends gjaldeyris 6. mars 2019. Þá breytti Seðlabankinn reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris úr 20% í 0%. Við breytinguna var síðasta hluta gjaldeyrishaftanna aflétt.

Sjá einnig: Eldrauður morgunn í Kauphöllinni

18 af þeim 20 félögum sem skráð eru á íslenska hlutabréfamarkaðnum hafa hækkað það sem af er dags. Úrvalsvísitalan OMXI10 hefur hækkað um tæplega þrjú prósent. Hækkunina má rekja til þess að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verður líklegast töluvert virkari í kjölfarið þar sem fjárfestar víðsvegar fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar.

Samsetning vísitölunnar er endurskoðuð á sex mánaða fresti.