Mikil gróska hefur verið í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð á Íslandi á undanförnum árum. Velta í greininni hefur margfaldast og nýtur Ísland mikilla vinsælda sem tökustaður fyrir erlendar stórmyndir, sjónvarpsþætti og myndbönd. Íslenskt sjónvarpsefni hefur einnig átt mjög góðu gengi að fagna, einkum í útlöndum. Kvikmyndagerð á Íslandi er ekki lengur eingöngu listform eða áhugamál fárra hugsjónamanna, heldur umfangsmikil atvinnugrein sem leiðir af sér umtalsverða verðmætasköpun í hagkerfinu.

„Þetta er orðinn alvöru iðnaður, það fer ekki á milli mála,“ segir Kristinn Þórðarson, framleiðandi hjá framleiðslufyrirtækinu Truenorth og formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK). SÍK eru hagsmunasamtök sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda sem vinna að því að efla íslenska kvikmyndagerð, en alls eru 35 framleiðendur innan vébanda sambandsins. Sambandið er aðili að Samtökum iðnaðarins, sem stefnir að því að efla framgang íslensks kvikmyndaiðnaðar.

Velta í kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu á Íslandi nam rúmlega 5 milljörðum króna árið 2010. Árið 2016 nam veltan 20 milljörðum og hefur hún aldrei verið meiri. Undanfarinn áratug hefur veltan rúmlega fjórfaldast og nemur samanlögð velta kvikmyndaiðnaðarins yfir 100 milljörðum á tímabilinu. Skýrist sú þróun af ýmsu, svo sem áhuga erlendra aðila í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli árið 2010, einstakri náttúru og skattalegum hvatar í gegnum endurgreiðslukerfið.

Mætum ekki eftirspurninni

Framleiðsla á íslenskum sjónvarpsþáttaröðum hefur stóraukist undanfarinn áratug og hafa þáttaraðir á borð við Rétt, Ófærð og Fanga selst um allan heim. Milljónir manna hafa horft á þáttaraðirnar.

„Með aukinni þekkingu og að- gengi að erlendu fjármagni hefur framleiðslan á íslensku sjónvarpsefni vaxið samfellt undanfarinn áratug. Allar íslenskar sjónvarpsþáttaraðir undanfarin fjögur eða fimm ár hafa fengið gríðarlega mikla dreifingu og ratað inn á erlendar efnisveitur á borð við Netflix og eðli málsins samkvæmt hefur það skapað miklar útflutningstekjur.

Íslenskar kvikmyndir eins og Hross í oss, Hrútar, Fúsi, Þrestir, Hjartasteinn og Andið eðlilega hafa einnig verið vinsælar og unnið til margra alþjóðlegra verðlauna,“ segir Kristinn, en þess má geta kemur fyrsta fjármagn íslenskra kvikmynda úr Kvikmyndasjóði og síðan fá myndirnar gjarnan fjármagn að utan. Fyrir sjónvarpsefni er þessu öfugt farið.

Framleiðsla á íslenskum kvikmyndum hefur lítið breyst undanfarin ár, en framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni hefur aukist gríðarlega. Framboð á íslensku sjónvarpsefni sinnir þó ekki eftirspurninni meðal erlendra framleiðenda.

„Það er mikil eftirspurn eftir íslensku sjónvarpsefni. Við hjá Truenorth erum til dæmis að klára handrit að sjónvarpsþáttaröð, sem DR Sales er með í sölu og hefur nú þegar selt til 15 landa, jafnvel þó að tökur hefjist næsta haust. Íslenskt hugvit á sér því gott orðspor enda búum við yfir hæfileikaríku fólki í þessari grein,“ segir Kristinn.

„Eftir sem áður náum við ekki að framleiða nóg. Til að mynda erum við að vinna með dönskum og þýskum framleiðendum sem vilja fá íslenskt efni. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að mæta eftirspurninni, meðal annars vegna þess að framlög úr Kvikmyndasjóði til framleiðslu sjónvarpsefnis eru ónæg.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .