Jökla er fyrsti íslenski rjómalíkjörinn og er hann að megninu til framleiddur úr innlendum hráefnum. Stefnt er að koma líkjörnum í búðir ÁTVR um áramótin og standa viðræður yfir.

„Þetta er eiginlega tilbúið, framleiðsluaðferðin er komin og lokahönnun á flösku er klár. Við ættum að geta birt afraksturinn fljótlega eftir að viðskiptahraðallinn [Til sjávar og sveita] er búinn, þetta er ægileg hamingja,“ segir Pétur Pétursson, einn af tveimur forsprökkum fyrirtækisins Jöklavin.

Þau hjónin Pétur og Sigríður Sigurðardóttir eru eigendur félagsins Jöklavin sem hyggst framleiða téðan rjómalíkjör. Pétur er lærður mjólkurfræðingur og Sigríður er viðskiptafræðingur. Félagið er eitt af þeim tíu sem hafa verið valin til þátttöku í hraðlinum Til sjávar og sveita sem hefst 21. september næstkomandi. Uppskerudagur hraðalsins fer svo fram 19. nóvember.

Eins og áður var nefnt eru hráefni líkjörsins að megninu til framleidd á Íslandi. Framleiðslan mun eiga sér stað í Mjólkursamlagi KS á Sauðárkróki. Stefnt er að því að vínandinn sem notaður er í Jöklu sé unninn úr ostamysu, sem áður hafði verið fargað.

Það er félagið Heilsuprotein, sem er í eigu Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga, sem er að vinna að endurnýtingu ostamysunnar. Enn fremur eru engin þykkingarefni notuð við framleiðsluna á Jöklu heldur einungis mjólkurefni, Pétur telur að slíkt sé nýtt af nálinni.

Hugmyndin fjórtán ára gömul

„Þetta byrjaði allt þegar ég fór til Ítalíu árið 2006. Þar hitti ég ítalskan bónda sem framleiddi meðal annars mjólkurlíkjör. Ég var svo hrifinn af hugmyndinni að ég náði henni ekki úr hausnum á mér. Í kjölfarið fór ég í tilraunastarfsemi í eldhúsinu heima til þess að finna réttu bragðefnin og blönduna,“ segir Pétur og bætir við að hann sé mjólkurfræðingur að mennt og því haft grunnskilning á hvað þyrfti að gera.

„Eftir ófá matarboð ákvað ég að fara með hugmyndina lengra. Það var samt ekki fyrr en árið 2012 þegar ég fór að huga að framleiðslu á rjómalíkjörnum. Síðan þá höfum við hægt og rólega verið að þróa ferlið,“ segir Pétur. Hann hafi samt sem áður ekki haft aðgang að þeim tækjum sem þarf á að halda fyrir slíka framleiðslu sem hafi reynst mikil áskorun.

Síðar meir hóf hann samstarf með Mjólkursamsölunni og Mjólkursamlaginu á Sauðárkróki sem tryggði þeim hjónunum greiða leið að þeim tækjum sem þurfti og hófust prófanir á framleiðslu fyrir um ári.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .