Giuseppa Conte, forsætisráðherra ríkisstjórnar Fimm stjörnu bandalagsins og Bandalagsins (sem áður var þekkt sem Norðurbandalagið) í Ítalíu hyggst fara á fund forseta landsins og segja af sér.

En áður en hann tilkynnti um það setti hann fram harða gagnrýni á Matteo Salvini innanríkisráðherra og leiðtoga hægriflokksins Bandalagsins og sagði hann veikja landið með því að þrýsta á nýjar kosningar.

Conte, sem er meðlimur Fimm stjörnu hreyfingarinnar, var valinn í embættið sem sáttafulltrúi því hvorki Salvini né leiðtogi hinnar frjálslyndu Fimmstjörnu hreyfingar, Luigi Di Maio efnahagsmálaráðherra gátu unnt hinum forsætisráðherraembættið. Urðu þeir því hvor um sig einnig varaforsætisráðherrar í þessari um ársgömlu ríkisstjórn sem nú riðar til falls.

ESB efasemdir sameinaði ríkisstjórnarflokka

Salvini sagði fyrr í mánuðinum að ríkisstjórnin ætti ekki framtíð. Stjórnin var mynduð utan hefðbundinna flokkabandalaga í landinu utan um andstöðu beggja flokka, sem að mörgu öðru leiti eru mjög ólíkir að gerð og áherslum, við aukið vald Evrópusambandsins. Þá hafa báðir flokkarnir einnig gjaldið varhug við óheftum innflutningi fólks til landsins.

Líklegt er þó að einörð afstaða Salvini og Bandalagsins gegn því sem margir álíta misnotkun á hælisleitendakerfi landsins og Evrópusambandsins með straumi fólks á bátum yfir Miðjarðahafið sé ástæða orða Salvini um framtíð ríkisstjórnarinnar.

Þannig hefur flokkur hans risið hátt í skoðanakönnunum og gæti hann orðið mun stærri í nýjum kosningum en Fimmstjörnu hreyfingin sem aftur hefur dalað mikið síðan í kosningunum 4. mars 2018 þegar þeir urðu stærsti einstaki flokkurinn í landinu.

Á sama tíma berast fréttir um að sósíalistastjórnin á Spáni hyggist senda skip til að bjarga hælisleitendum frá Afríku í báti samtakanna Open Arms sem Innanríkisráðherrann hefur ekki gefið heimild til að taka land á Ítalíu.

Útgjaldaliðir eins og borgaralaun auka fjárlagahalla

Conte segir stjórnarkreppuna hinda samningaviðræðurnar við Evrópusambandið um fjárlagahalla ríkisins, sem þannig séu svik við kjósendur sem vilji breytingar. Ríkisstjórn flokkanna samþykkti fjárlagafrumvarp með mun meiri útgjöldum en ESB sættir sig við, m.a. vegna upptöku eins konar borgaralauna sem er eitt helsta baráttumál Fimmstjörnu hreyfingarinnar.

„Salvini hefur sýnt að hann eltist við eigin hag og flokks síns,“ hefur FT eftir Conte. Búist er við að hann muni biðjast lausnar fyrir ríkisstjórn sína á fundi með Sergio Mattarella í dag sem þá þarf að skoða ef mögulegt er að mynda nýja ríkisstjórn eða þörf sé að halda nýjar kosningar sem gætu tafið viðræðurnar enn frekar.

Hefur gengi hlutabréfa í ítölsku kauphöllinni lækkað síðan þetta fréttist á sama tíma og að ávöxtunarkrafan á ítölsk 10 ára ríkisskuldabréf hefur lækkað og verð skuldabréfa hækkað við það að fjárfestar leita í skjól.

Skoðanapistlar um stöðuna á Ítalíu:

Frekari fréttir um stöðu mála á Ítalíu: