Hlutabréf netverslunarrisans Alibaba hækkuðu um 5% í kjölfar þess ríkisfjölmiðill í héraðinu Zhejiang í austurhluta Kína sagði frá því í gær að hann hefði ávarpað 100 kennara í dreifðari byggðum héraðsins á netfundi. Bréf félagsins hafa lækkað um 2,42% síðan á ný.

Þar með var þetta í fyrsta sinn sem stofnandi Alibaba sást opinberlega síðan í október en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í ársbyrjun komu upp vangaveltur um hvar hann væri niðurkominn þó í kjölfarið hafi komið fram yfirlýsingar um að hann væri sjálfur að láta lítið fyrir sér fara .

Stjórnvöld í kommúnistalandinu hafa löngum notað þá aðferð að láta andstæðinga sína eða aðra sem valdið hafa stjórnvöldum óþægindum hverfa. Eru ráðamenn taldir hafa tekið hvatningu hans í ræðu í október í Sjanghæ um frjálsara markaðshagkerfi í bankageira landsins sem gagnrýni.

Jack Ma hafði verið kallaður á teppið hjá stjórnvöldum í kjölfar ræðu með ákallinu ásamt því að eftirlitsstofnanir stöðvuðu frumútboð og skráningu á félagi hans Ant Group, sem stefndi í að verða það stærsta í sögunni, með yfir tífalda eftirspurn miðað við framboð , en félagið heldur utan um greiðslulausnina Alipay.

Í frétt Tianmu News, sem héraðsstjórn Zhejiang stendur á bakvið, tilkynnti um ávarp Ma sem er hluti af verkefnum góðgerðarstofnunar sem hann kom á fót. Atburðurinn fer alla jafna fram í borginni Sanya en í þetta sinn fór hann fram á netinu vegna samkomutakmarkana vegna Covid 19.

„Við getum ekki hist í Sanya vegna faraldursins,“ hefur BBC eftir Ma í ræðunni sem var sjónvarpað frá herbergi með gráum marmaraveggjum og röndóttu teppi, en ekki kom fram hvaðan hann var að ávarpa fundinn. „Þegar faraldurinn er yfirstaðinn, þá verðum við að bæta upp fyrir ferð allra til Sanya, og þá munum við hittast á ný.“

Auk afskipta af útboði Ant Group, sem Jack Ma stofnaði síðar utan um Alipay greiðslulausnina sem varð til á Alibaba netversluninni, hefur netverslunin sjálf þurft að sæta rannsókn stjórnvalda vegna meintrar einokunar í kjölfar ræðu Ma í haust.