Fyrirtækið SAReye er eitt þeirra íslensku ný- sköpunarfyrirtækja sem fengu nýlega styrk frá Evrópusambandinu. Guðbrandur Örn Arnarson, framkvæmdastjóri SAReye, segir það fyrst og fremst vera viðurkenningu fyrir félagið. „Við erum komnir inn fyrir þennan fyrsta þröskuld hjá Evrópusambandinu og með þessum styrk fáum við í rauninni viðurkenningu á því að það sem við erum að gera sé góð hugmynd. Þannig það er skrautfjöður í hattinn. Ég er núna akkúrat á Bretlandseyjum að segja frá því sem við erum að gera,“ segir hann.

Uppruni félagsins var í hugbúnaði fyrir viðbragðsaðila. „Þetta er fyrst og fremst verkefna- og neyðarstjórnunarkerfi í almannavarnakerfinu. Í því samhengi snýr það mikið að aðgangsstýringar- og öryggismálum til þess að tryggja öryggi viðkvæmra upplýsinga sem verið er að vinna með. Síðan þegar þessir jaðaraðilar í almannavarnakerfinu fóru að kynnast kerfinu okkar þá opnaðist alveg nýr markaður fyrir okkur,“ segir Guðbrandur en jaðaraðilar í almannavarnakerfinu eru þeir aðilar sem eiga og reka mikilvæga innviði í landinu á borð við Landsnet, Landsvirkjun og fjarskiptafyrirtækin.

Hann segir kerfið hjálpa við að bregðast við afleiddum áhrifum af áföllum. „Það má segja að áhætta í dag sé ekki einkamál frirtækja heldur getur haft gríðarleg áhrif á rekstur annarra fyrirtækja. Menn þurfa þá að vera að vinna saman að því að finna lausnir því það er ekki alltaf ljóst hvar bilunin liggur,“ segir Guðbrandur en til útskýringar tekur hann dæmi.

„Netárásir til dæmis, það er ekki alltaf alveg klárt hvert fórnarlambið er og hver sé árásaraðili. Það getur verið þannig að einhverjar tölvur séu herteknar og látnar ráðast á aðrar tölvur. Þá skiptir ekki máli hvort þú ert sá sem er með veikleikann sem veldur því að það var hægt að taka yfir tölvurnar þínar eða hvort þú að endingu verður fyrir árásinni. Menn þurfa að geta unnið saman að lausn á vandanum. Sama gildir ef fjarskipti liggja niðri eða rafmagnið fer, þá þurfa menn að vinna saman í því að nálgast bilanagreininguna og lausnina á vandanum frá sitt hvorum sjónarhólnum. Við erum að búa til samvinnugrundvöll þar sem fyrirtæki geta opnað sín kerfi að hluta eða heild,“ segir hann. „Í dag er það orðið þannig að það vinna allir saman þegar áföll verða. Landsbjörg er með sitt kerfi, Rauði krossinn er með sitt kerfi og aðrir aðilar einnig en þegar þessir aðilar opna kerfin sín á milli eru allir með heildaryfirsýn og sjá hvað hinir eru að gera. Þannig það má segja að við rekum hálfgert fjarskiptakerfi á milli fyrirtækja.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .