Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,1% milli júlí og ágúst, en öll lækkunin var tilkomin vegna 0,3% lækkunar á verði sérbýlis. 12 mánaða hækkun fjölbýlis stendur í 3,2%, en 6% fyrir sérbýli. Meðalhækkun síðustu 12 mánaða er því 4,1%, samanborið við 5,2% í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Hóflegar hækkanir fasteignaverðs samhliða tiltölulega lágri og stöðugri verðbólgu þýða að raunverð fasteigna er tiltölulega stöðugt. Síðustu ár eru sögð hafa einkennst af miklum hækkunum fjölbýlis umfram kaupmátt, en sú þróun hafi stöðvast um mitt síðasta ár þegar verulega dró úr miklum hækkunum fjölbýlis.

Frá árinu 2016 og fram á 2017 hækkaði fasteignaverð töluvert umfram byggingakostnað, svo sífellt arðvænlegra varð að byggja húsnæði. Þessi þróun snérist svo við á síðasta ári, þegar mikið hægði á hækkunum fasteignaverðs og byggingakostnaður fór að hækka.