Helstu niðurstöður könnunar sem Íslandsstofa lét gera á fjórum erlendum mörkuðum um ímynd Íslands sem áfangastaðar er að frá árinu 2014 hefur hlutfall þeirra sem eru jákvæðir gagnvart Íslandsheimsókn aukist um 27,3%.

Sögðust 70% aðspurðra nú vera jákvæðir gagnvart Íslandsheimsókn en þar var um helmingur þeirra jákvæðir gagnvart því að koma hingað utan sumartímans, sem er 44% aukning frá árinu 2014.

Jafnframt eru 54% jákvæðir gagnvart íslenskum vörum, en árið 2011 voru 31% jákvæðir gagnvart þeim.

Fjórir fimmtu upplifa svipaða eða aukna sölu

Einnig lét stofan gera könnun meðal erlendra söluaðila Íslandsferða, en um 80% þeirra upplifa svipaða eða aukna sölu á síðasta ári ef miðað er við árið 2015.

Horfurnar í bókunum séu enn góðar þó þær séu hóflegri en á síðasta vetrartímabili. Enn sem komið er, er það náttúran það fyrsta sem flestir aðspurðra í fyrri könnuninni nefna um ísland, en þó er nokkur munur milli markaða.

Bretar vilja norðurljós

Nefna til dæmis Bretar oftar norðurljós en aðrar þjóðir meðan Danir nefna jarðvarma.

„Þeir eiginleikar sem fólk tengir mest við Ísland er öryggi, víðátta, kyrrð, hreinleiki, óvenjulegt landslag, og náttúruundur," segir í fréttatilkynningu Íslandsstofu um könnunina, sem kynnt verður nánar á fundi á morgun.

„64% þykja Ísland hafa áhugaverða sögu og menningu sem er 9% aukning frá árinu 2015. Athygli vekur að þrátt fyrir styrkingu krónunnar mælist engin breyting á viðhorfi til verðlags á Íslandi á meðal erlendra neytenda.“