VÍS hagnaðist um rúmlega milljarð króna á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við nær 400 milljóna króna tap á þriðja ársfjórðungi 2019. Heildartekjur VÍS námu 6,7 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og jukust um milljarð milli ára. Eigin tjón dróst saman á milli ára og nam 4,2 milljörðum. Félagið hagnaðist um 916 milljónir á öðrum ársfjórðungi 2020.

Miklu munar um hreinar fjárfestingatekjur félagsins sem voru jákvæðar um 1,1 milljarð króna á þriðja ársfjórðungi 2020 en neikvæðar um 237 milljónir á sama tíma árið áður. Gangvirðisbreytingar fjáreigna voru jákvæðar um rúmlega 900 milljónir á fjórðungnum.

Í lok þriðja ársfjórðungs námu eignir félagsins 54 milljörðum króna og hafa aukist um fjóra milljarða það sem af er ári. Nær 38 milljarðar er vegna fjáreigna. Skuldir félagsins nema 39 milljörðum og eigið fé rúmlega fimmtán milljörðum.

Mun lakari rekstur það sem af er ári

Þrátt fyrir að afkoma VÍS á þriðja ársfjórðungi 2020 hafi verið betri í ár en 2019 á það ekki við um fyrstu níu mánuði ársins. Á téðu tímabili hefur VÍS tapað fimmtán milljónum króna en á sama tíma fyrir ári síðan hafði félagið hagnast um 1,8 milljarða króna.

Heildartekjur á fyrstu þremur fjórðungum ársins nema 19 milljörðum króna í ár og eru 300 milljónum lægri en á fyrra ári. Hreinar fjárfestingatekjur félagsins hafa nær ekkert breyst milli ára. Eigin tjón VÍS hefur hins vegar aukist um tæplega tvo milljarða á fyrrnefndu tímabili. Það sem af er ári eru heildargjöld VÍS 19 milljarðar króna en þau voru rúmlega 17 milljarða á sama tíma fyrir ári síðan.

„Uppfærð afkomuspá geri ráð fyrir því að samsett hlutfall fyrir árið 2020 verði 105,5%, ávöxtun fjáreigna verði 8,2% og hagnaður fyrir skatta 390 milljónir. Afkomuspá til næstu 12 mánaða gerir ráð fyrir 96,8% samsettu hlutfalli, 5,6% ávöxtun fjáreigna og hagnaði fyrir skatta upp á rúmlega 2,3 milljarða,“ kemur fram í tilkynningu félagsins.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Árangur í fjárfestingum var góður á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir áskoranir á eignamörkuðum vegna heimsfaraldursins. Fjárfestingatekjur námu 1.110 m.kr. og nafnávöxtun var 2,9%. Afkomu af fjárfestingum má einkum rekja til ávöxtunar af skráðum hlutabréfum en hækkun skráðra hlutabréfa nam 7,2%. Einnig var afkoma af erlendum skuldabréfasjóðum góð í ársfjórðungnum.

Viðsnúningur var í vátryggingarekstri milli fjórðunga. Afkoma vátryggingarekstrarins í þriðja ársfjórðungi var jákvæð um  358 milljónir króna ─ samanborið við tap upp á 158 milljónir króna í öðrum ársfjórðungi 2020. Iðgjöld tímabilsins voru 5.735 milljónir króna samanborið við 6.085 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Helstu ástæður fyrir lækkun iðgjalda er samdráttur í ferðaþjónustu og  minni umsvif í erlendri endurtryggingastarfsemi. Samsett hlutfall fjórðungsins var 94,5%.“