Seðlabanki Japans mun ekki herða peningastefnuna og leyfa vöxtum að hækka, eins og margir höfðu búist við. Þetta kom fram í tilkynningu bankans í morgun, sem Financial Times segir frá .

Tveir stærstu seðlabankar heims, sá bandaríski og sá evrópski, hafa verið að auka aðhald eftir að hafa haldið vöxtum lágum í áratug síðan í fjármálakreppunni. Japanski seðlabankinn er því einn eftir á sinni braut af stóru þremur seðlabönkunum.

Bankinn hefur þurft að bregðast þrisvar við til að stemma stigu við hækkandi ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa Japans síðastliðna viku, vegna áðurnefndra væntinga um hugsanlega stefnubreytingu bankans.

„Þetta mun koma í veg fyrir vangaveltur um hugsanlega hækkun vaxta í bráð,“ sagði Haruhiko Kuroda, seðlabankastjóri Japans. Greinendur sammæltust um að hann hefði sannfært markaðinn í að minnsta kosti 6 til 9 mánuði.

Í kjölfar tilkynningarinnar lækkaði ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa Japans um 5 punkta (0,05%) í 0,04%, en bankinn hafði gefið út að markmið hans væri að halda vöxtum bréfanna í kring um núllið, með 0,2% skekkjumörkum.

Verðbólga í Japan hefur lengi verið mjög lág, og þrátt fyrir áframhaldandi slaka peningastefnunnar lækkaði bankinn verðbólguspá sína niður í 1,6% í ljósi nýjustu mælinga vísitölu neysluverðs.

Þess má geta að skuldir Japanska ríkisins námu árið 2017 rúmlega 250% af vergri landsframleiðslu. Því er ljóst að allar vaxtahækkanir gætu komið ansi illa við ríkisreksturinn.