Vísindamenn telja sig hafa fundið plánetu sem gæti verið lík jörðinni í næsta sólkerfi við okkar, í 4,2 ljósára fjarlægð eða einungis rétt um 40 þúsund milljarða kílómetra í burtu.

Fannst með mælingu þyngdaráhrifa

Í kringum sólina Proxima Centauri, sem er lítill rauður dvergur, og hluti af þrístjörnusólkerfi með stjörnunum Alpha Centauri A og Alpha Centauri B sem eru líkari okkar sól að stærð, hafa vísindamenn uppgötvað plánetu.

Plánetan, sem kölluð er Proxima b, fannst með notkun mælitækja sem mæla þau örlitlu þyngdaráhrif sem plánetan hefur á sólina sem hún snýst um. Samkvæmt niðurstöðum mælinganna gæti plánetan verið í það minnsta einungis 30% massameiri en jörðin, og því verið jarðarlík pláneta í stað þess að vera gasrisi líkt og margar plánetur sem fundist hafa í öðrum sólkerfum.

Nógu nálæg til að senda skilaboð eða gervihnött

"Auðvitað er það vísindaskáldsaga að geta haldið þangað í bráð, en fólk er byrjað að hugsa um það og það er ekki lengur eingöngu fræðilegar vangaveltur að ímynda sér að við getum sent gervihnött þangað einn daginn," sagði Guillem Anglada-Escudé, en hann leiddi vísindahópinn við Queen Mary Unversity í London, sem upplýsir um fundinn í fræðiritinu Nature.

"Fjarlægð plánetunnar frá sólinni er einungis 5% af fjarlægð jarðarinnar frá sólinni. Hins vegar er Proxima 1.000 sinnum dimmari en sólin, svo orkan sem berst plánetunni er rétt um 70% af því sem jörðin fær frá sólinni. Þetta væri eins og ef jörðin væri færð aðeins frá sólinni, en þetta er samanburðarhæft."

Undir réttum kringumstæðum gæti plánetan hýst líf

Ef plánetan hefur nægilegt andrúmsloft sem væri með réttu magni gróðurhúsalofttegunda og hefði réttar yfirborðsaðstæður, gæti vatn verið til staðar í fljótandi formi þar. Vatn á fljótandi formi er lykillinn fyrir því að líf eins og við þekkjum það gæti þrifist þar.

"Ég held þetta sé mikilvægasta uppgötvun um plánetu í öðru sólkerfi sem orðið getur, hvernig er hægt að trompa það að byggileg pláneta sé til staðar við nálægustu stjörnu við okkar eigin sólkerfi?" spyr Dr. Carole Haswell frá Opna Háskólanum í frétt BBC.