Tekjur Íslendinga hafa aukist mikið síðustu ár og sjaldan áður skilað jafn miklum kaupmætti. Þetta er meðal þess sem fram kemur í frétt á heimasíðu Viðskiptaráðs .

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands hægði þó nokkuð á vextinum árið 2018 en miðgildi ráðstöfunartekna hækkaði um 5,2% samanborið við 8% hækkun árið 2017. Í tölum Hagstofunnar má sjá ýmislegt annað sem varpar ljósi á þróun íslensks samfélags og efnahagslífs. Til dæmis vísbendingar um minnkandi ójöfnuð, vaxandi skattbyrði, mismunandi tekjuþróun aldurshópa, minnkandi ávinning háskólamenntunar og aukinn tekjujöfnuð kynjanna," segir í fréttinni.

Minni ávinningur af háskólamenntun

Þá segir jafnframt í fréttinni að engar einhlítar skýringar virðist vera á mismunandi tekjuþróun aldurshópa. En ein möguleg skýring er sögð vera að vægi reynslu í atvinnulífinu hafi aukist á meðan fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hafi minnkað. Um þessa hlutfallslegu tekjulækkun háskólamenntaðra var fjallað í Skoðun Viðskiptaráðs á síðasta ári. Í tölum frá Hagstofunni sést að fjárhagslegur ávinningur menntunar, sérstaklega háskólamenntunar hefur almennt dvínað frá 2010 og þar á meðal á síðustu árum. Ein undantekning er þó allra síðustu ár þar sem tekjur þeirra sem hafa starfsnám á framhaldsskóla- eða viðbótarstigi hafa 15% meira en gengur og gerist 2016-2018. Í þeim hópi eru iðnmenntaðir áberandi svo sú aukning gæti endurspeglað vaxandi eftirspurn eftir fólki með slíka menntun.