Tónskáldið Jóhann Jóhannsson fannst látinn á heimili sínu í Berlín í gær, 48 ára að aldri. Frá þessu er greint í frétt á vef RÚV .

Jóhann var á undanförnum árum eitt þekktasta kvikmyndatónskáld Íslands og hlaut mikið lof fyrir tónlistina í kvikmyndunum Prisoners, Sicario og Arrival, auk þess að fá tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna árið 2014 fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything. Hann var tilnefndur til Óskar-, BAFTA- og Grammy-verðlauna fyrir sömu mynd.

Á árum áður var Jóhann meðlimur í rokksveitinni HAM og einn stofnenda hljómsveitarinnar Apparat Organ Quartet.

Jóhann var ókvæntur og lætur eftir sig eina uppkomna dóttur, en dánarorsök hans er ókunn.