Að heyra jólakveðjur lesnar á Rás 1 er hluti af jólahefðum landsmanna. Lestur þeirra hefst klukkan 20 í kvöld á Rás 1 og stendur svo yfir svo til allan morgundaginn Þorláksmessudag.

Gunnar Smári Egilsson áætlar í færslu á Facebook að í heild standi lesturinn yfir í um þúsund mínútur og miðað við gjaldskrá RÚV á dánartilkynningum, 298 krónur orðið, kunni þetta að skila RÚV um 29 milljónum króna. Þá miðar Gunnar Smári við að hundrað orð séu lesin á mínútu.

Raunar er gjaldskráin líklega lítillega hærri en Gunnar Smári áætlar en hvert tákn kostar 52 krónur án virðisaukaskatts og 64 krónur með virðisaukaskatti.

Þannig kostar jólakveðjan: „Ritstjórn Viðskiptablaðsins sendir hugheilar jólakveðjur til lesenda og velunnara nær og fjær" 6.061 krónu með virðisaukaskatti.

Alls námu tekjur RÚV af svokölluðum samkeppnisrekstri tæpum tveimur milljörðum króna í fyrra, en þar af námu auglýsingatekjur um 1,6 milljörðum króna. Því til viðbótar koma greiðslur úr ríkissjóði. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að framlag ríkisins til RÚV verði hækkað um 430 milljónir króna í tæplega 5,1 milljarð króna en styrkir til einkarekinna fjölmiðla lækkaðir lítillega og eiga að nema ríflega 390 milljónum króna.