Jón Birgir Eiríksson og Sverrir Bartolozzi
Jón Birgir Eiríksson og Sverrir Bartolozzi
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þeir Jón Birgir Eiríksson og Sverrir Bartolozzi hafa verið ráðnir til Viðskiptaráðs Íslands en þetta kemur fram í tilkynningu VÍ í dag.

Jón Birgir Eiríksson er nýr sérfræðingur á lögfræðisviði Viðskiptaráðs. Starf hans mun fyrst og fremst snúa að málefnastarfi ráðsins, svo sem lögfræðistörfum og skrifum. Auk þess mun hann taka þátt í útgáfustarfi ásamt öðrum daglegum störfum ráðsins.

Jón Birgir er með BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og starfaði áður sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Árin 2014-2015 var Jón Birgir formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Hann hefur þegar hafið störf.

Sverrir Bartolozzi hagfræðingur er nýr sérfræðingur í greiningum hjá Viðskiptaráði. Starf hans mun fyrst og fremst snúa að málefnastarfi og útgáfu ráðsins, svo sem hagfræðilegum greiningum og skrifum. Auk þess mun hann taka þátt í  öðrum daglegum störfum ráðsins.

Sverrir er að ljúka M.Sc. gráðu í fjármálum og hagfræði frá London School of Economics and Political Science auk þess að vera með B.Sc. gráðu í sömu greinum frá Háskólanum í Reykjavík. Sverrir hefur sinnt dæmatímakennslu í Háskólanum í Reykjavík og unnið sumarstörf fyrir Júpiter rekstrarfélag og Landsbankann.