Hluthafar í Símanum koma saman næsta fimmtudag til að kjósa nýja stjórn í félaginu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Símanum á vef Kauphallarinnar. Fundurinn er haldinn að kröfu fjárfestingafélagsins Stoða sem fer með tæp 14% í símanum sem jafnframt fór fram á að margfeldiskosningu verði beitt við stjórnarkjörið.

Alls bjóða sex einstaklingar sig fram og þar af eru tveir sem ekki sitja í núverandi stjórn Símans, þeir Kolbeinn Árnason lögmaður og Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða. Ksenia Nekrasova sem situr nú í stjórninni gefur ekki kost á sér. Fimm einstaklingar sitja í stjórn Símans og því ljóst að færri nái kjöri en vilja.

Samkvæmt samþykktum félagsins skal stjórn þess skipuð fimm einstaklingum og skal hlutfall hvors kyns innan stjórnar ekki vera lægra en 40%. Þetta þýðir að Silvía Kristín og Helga Valfells, eru sjálfkjörnar í stjórnina þar sem þær eru einu konurnar í framboði.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða, sem fer eins og áður sagði með um 14% hlutafjár í félaginu, þykir nokkuð öruggur um kjör.

Þá eru eftir tvö sæti og þrír frambjóðendur og spurningin því hvort það verður Bertrand Kan, Bjarni Þorvarðsson eða Kolbeinn Árnason sem standur út af að kosningunum loknum.

Eftirfarandi aðilar hafa gefið kost á sér í stjórn félagsins:

Bertrand Kan, hollenskur fjárfestir, núverandi stjórnarformaður og eigandi 0,3% hlutafjár í Símanum. Bertrand hefur víðtæka starfsreynslu í fjárfestingarbankastarfsemi með sérstaka áherslu á fjarskipta-, fjölmiðla- og tæknimarkaði. Lengst af var Bertrand hjá Morgan Stanley þar sem hann var framkvæmdastjóri og yfirmaður deildar með áherslu á evrópska fjarskiptamarkaði. Í kjölfarið fór Bertrand til Lehman Brothers þar sem hann var meðstjórnandi sviðs yfir alþjóðlegum fjarskiptamörkuðum og var meðlimur evrópsku rekstrarnefndarinnar hjá bankanum.

Helga Valfells, núverandi varaformaður stjórnarinnar. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri hjá nýsköpunarsjóðnum Crowberry Capital. Helga er varaformaður stjórnar Íslandsbanka auk þess er hún stjórnarmaður í stjórn Sensa og Aldin Dynamics. Áður en Helga stofnaði Crowberry árið 2017 var hún framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2010. Helga á ekki hluti í Símanum.

Bjarni Þorvarðarson, rafmagnsverkfræðingur og núverandi stjórnarmaður. Hann starfaði áður fyrir fjárfestingafélagsins CVC í Bandaríkjunum og sat í stjórnum nokkurra af fjarskiptafyrirtækjum CVC á Íslandi, Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi, Bretlandi, Hollandi. Indlandi og Ástralíu. Bjarni á ekki hluti í símanum.

Jón Sigurðsson. Hann er stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Stoða hf., sem er stærsti hluthafi Símans. Jón er fæddur 1978 og er viðskiptafræðingur að mennt. Jón hefur starfað á íslenskum og erlendum fjármálamarkaði í u.þ.b. 20 ár, ýmist sem stjórnandi, fjárfestir, ráðgjafi eða stjórnarmaður.

Kolbeinn Árnason er lögmaður og eigandi hjá Dranga Lögmönnum ehf., sem er sérhæfð lögmannsstofa sem sinnir verkefnum á réttarsviðum tengdum viðskiptalífinu. Hann hefur setið í stjórn LBI ehf., frá því að nauðasamningur við kröfuhafa félagsins var staðfestur árið 2016. Kolbeinn var framkvæmdastjóri Samtaka Fyrirtækja í Sjávarútvegi frá 2013 til 2016 og sat á því tímabili einnig í Framkvæmdastjórn Samtaka Atvinnulífsins. Kolbeinn á 1 milljón hluti í Símanum.

Sylvía Kristín Ólafsdóttir  lauk mastergráðu frá London School of Economics í Aðgerðarannsóknum árið 2006. Fyrir það, eða árið 2005 lauk hún BSC í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Sylvía starfaði í 5 ár hjá Amazon first sem sérfræðingur í nýfjárfestingum á fjármálasviði og seinna sem yfirmaður viðskiptagreindar og vörustjóri í Kindle deild Amazon. Árin 2007 til 2010 starfaði hún fyrir Seðlabanka Íslands sem Forstöðumaður viðbúnaðarsviðs. Sylvía á ekki hluti í Símanum hf.