Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrum hæstaréttardómari, var í dag sýknaður í meiðyrðamáli sem Benedikt Bogason, hæstaréttardómari höfðaði gegn honum. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness. Frá þessu er greint á Vísi .

Benedikt stefndi Jóni Steinari vegna ummæla í bók Jóns Steinars, „Með lognið í fangið", sem kom út á síðasta ári. Benedikt telur að ummæli Jóns Steinar um að dómarar við Hæstarétt, þar á meðal hann sjálfan, hafi framið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, hafi verið ærumeiðandi.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Benedikts, sagði að fullyrðingar Jóns Steinars hafi beinst að Benedikt persónulega og að staðhæfing um saknæmt athæfi hafi falist í þeim. Hann krafðist þess að BEnedikt fengi 2 milljónir króna í bætur auk þess að fimm ummæli um dómsmorð yrðu ómerkt.

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Steinars, sagði að ekki mætti þagga niður í Jóni Steinari sem hæfasta gagnrýnanda íslensks dómskerfis. Vegna þess nyti hann rýmra tjáningarfrelsis en flestir aðrir til að tjá sig um störf Hæstaréttar.

Hægt er að nálgast dóm Héraðsdóm Reykjaness hér .