Jóna Bjarnadóttir hefur verið ráðin forstöðumaður umhverfisdeildar á þróunarsviði Landsvirkjunar. Jóna hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2014 sem verkefnisstjóri og hafa hennar verkefni meðal annars snúið að mati á umhverfisáhrifum nýrra virkjana og stjórnun umhverfismála vegna byggingar Þeistareykjavirkjunar. Áður starfaði hún sem ráðgjafi lengst af hjá Mannviti þar sem hún var einnig umsjónarmaður umhverfisstjórnunarkerfis.

Umhverfisdeildin hefur það hlutverk að leiða metnaðarfullt umhverfisstarf fyrirtækisins þar sem kolefnishlutlaus starfsemi, betri nýtingu auðlinda og starfsemi í sátt við náttúru og ásýnd er höfð að leiðarljósi. Helstu verkefni deildarinnar fela í sér rekstur umhverfisstjórnunarkerfis, umhverfisrannsóknir og mótvægisaðgerðir,  og önnur sértæk verkefni tengd málaflokknum.

Jóna er M.Sc. próf í umhverfisstjórnun og stefnumótun frá Lundarháskóla og B.Sc. próf í lífefnafræði frá Háskóla Íslands.

Jóna er gift Stefáni Jónssyni efnafræðingi og eiga þau þrjár dætur.