Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Júlíusi Vífli Ingvarssyni þar sem hann er sakaður um peningaþvætti. Greint er frá þessu á vef Kjarnans .

Júlíus Vífill kom fram í Panama skjölunum en hann stofnaði fyrirtækið Silwood Foundation á Panama í ársbyrjun 2014 og að sögn Júlíusar var fyrirtækið stofnað með það að markmiði að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. Þá sagði hann jafnframt að íslenskum lögum hafi alfarið verið fylgt við stofnun fyrirtækisins.

Í færslu sem Júlíus Vífill birti á Facebook síðu sinni segir hann að engar lagalegar forsendur séu fyrir ákærunni en hann muni takast á við hana fyrir dómstólum.

Færsla Júlíusar í heild sinni:

„Undanfarin tvö ár finnst mér eins og ég hafi staðið í veðurbáli. Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum. Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum. Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi. Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn."