Eimskipafélagið segist hafa komist að því í dag eftir samtal við Umhverfisstofnun að í vikunni hafi félagið verið kært vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs vegna afdrifa tveggja skipa í eigu félagsins.

Segist félagið hafna þessum ásökunum enda hafi félagið fylgt í einu og öllu lögum og reglu í söluferlinu, og ekki komið að ákvörðun um að senda skipin í endurvinnslu, eftir að það hætti að leigja þau áfram í vor.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hugðist sjónvarpsþátturinn Kveikur á RÚV taka til umfjöllunar að skipin Goðafoss og Laxfoss séu nú komin í niðurrif í brotajárn í skipakirkjugarinum í Alang á Indlandi.

Í síðustu viku fjallaði Viðskiptablaðið ítarlega um umfjöllun BBC um skipakirkugarðana í Alang, en kaupandi skipanna, félagið GMS sem Eimskip segir stærsta kaupanda notaðra skipa í heiminum, er þekktur milliliður milli skipafélaga og félaga sem stunda niðurrif skipanna þar.

Hefur GMS verið ásakað um að vera leið fyrir skipafélögin til að komast hjá alþjóðlegum sáttmálum um meðferð spilliefna um borð í skipunum sem og að starfsmennirnir sem vinni að niðurbrotinu þar sem þeim er siglt upp í fjöru í héraðinu starfi í hættulegum aðstæðum án nægilegs öryggisbúnaðar.

GMS hefur hins vegar hafnað slíkum ásökunum en Eimskip segir félögin tvö sem nú eiga skipin bæði hafa gengist undir alþjóðlega Hong Kong sáttmálann um meðferð spilliefna við niðurrif skipa og öryggissjónarmið.

Í tilkynningu Eimskip nú segir:

Eimskip hefur verið með ný skip í smíðum frá árinu 2017 til að leysa af hólmi skipin Goðafoss og Laxfoss og hafði þar af leiðandi í töluverðan tíma reynt að selja þau í gegnum alþjóðlega skipamiðlara. Í lok árs 2019 voru skipin loks seld og tók nýr eigandi við rekstri þeirra í upphafi þessa árs. Samhliða sölunni gerði Eimskip samning um að leigja þau meðan beðið var eftir afhendingu nýrra skipa. Sökum óvæntra og óhagstæðra markaðsaðstæðna skilaði Eimskip skipunum úr leigu til eiganda á vormánuðum, fyrr en upphaflega var gert ráð fyrir. Í kjölfarið tók eigandi skipanna ákvörðun um að selja skipin í endurvinnslu á Indlandi og kom Eimskip hvergi nálægt þeirri ákvörðun né með hvaða hætti skipin tvö voru endurunnin.


Eimskip hefur aflað upplýsinga frá Umhverfisstofnun sem hefur nú upplýst félagið að stofnunin hafi í vikunni kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Eimskip hafði engar upplýsingar um þá kæru fyrr en eftir samtal við Umhverfisstofnun fyrr í dag og stofnunin aflaði engra gagna frá Eimskip vegna málsins.

Eimskip hafnar þessum ásökunum enda fylgdi félagið í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli.