Kaffi með fiskikollageni, skartgripir úr hafinu, niðursoðinn þorskur og hreinsun hafsins voru meðal lokaverkefna nemenda á fyrsta námskeiði Sjávarakademíunnar sem lauk nýverið í Húsi sjávarklasans. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Á námskeiðinu fór fram frumkvöðlaþjálfun og farið yfir stofnun fyrirtækja og vöruþróun. Þá voru nemendur kynntir fyrir ýmsum frumkvöðlum og starfsemi þeirra og heimsóttu nemendur fyrirtæki, sem tengjast bláa hagkerfinu, á Suðurnesjum. Þá fólst lokaverkefni nemendanna í því að kynna viðskiptahugmynd fyrir dómnefnd akademíunnar.

Fullt nám Sjávarakademíunnar hefst í september og er þá um að ræða þriggja mánaða nám sem byggir á grunni námsbrautar Fisktækniskóla Íslands um hráefnisvinnslu, en þar að auki verður lögð mikil áhersla á vöruþróun, frumkvöðlaþjálfun, stofnun og rekstur fyrirtækja.

„Það sem er einstakt við nám Sjávarakademíunnar er ekki síst að nemendur stunda námið að mestu í Húsi sjávarklasans þar sem nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er allt um lykjandi. Námið er einnig hugsað á þann veg að kynna fyrir nemendum öll helstu tækifæri sem eru í bláa hagkerfinu hvort sem það er heilsu- og snyrtiefni úr hafinu, fiskeldi, þörungar, sjávarútvegur og tæknibúnaðar svo eitthvað sé nefnt," segir í tilkynningunni.

„Lögð verður áhersla á kynningu á vörum og nýjum fyrirtækjum á hinum ýmsu sviðum sjávarútvegs og fiskeldis, allt frá vinnslu til vöruþróunar, markaðssetningu og sölu."