Ólíkt mörgum hrávörum sem undanfarið hafa farið lækkandi í verði, hefur framvirkt verð á kaffi farið hækkandi.

Framvirkt verð á robusta kaffibaunum, sem oft eru notaðar í espresso kaffi, náði nýlega fjögurra ára hámarki þegar tonnið var verðlagt á 2.024 Bandaríkjadali, eða sem nemur tæpum 260 þúsund krónum á gengi dagsins. Þetta kemur fram í umfjöllun CNN .

Ástæða verðhækkana undanfarið ku vera óhagstæð veðurskilyrði í Brasilíu, stærsta kaffiframleiðslulands heims. Brasilía hefur gengið í gegnum verstu frostatíð frá árinu 1994. Fregnir herma að sumir kaffibændur munu þurfa að gróðursetja ný tré, sem gæti þýtt að það taki þá allt að þrjú ár að hefja framleiðslu á ný, að því er BBC segir frá.

Útflutningstafir í Víetnam ýta undir vandann

Til að bæta gráu ofan á svart hafa faraldurstakmarkanir í Víetnam sett þarlendan kaffiútflutning í uppnám, en landið er stórtækt í framleiðslu robusta kaffibauna.

Útflutningsmiðstöð baunanna í víetnömsku borginni Ho Chi Minh hefur verið heft af ströngum takmörkunum eftir að bylgja delta-afbrigðis kórónuveirunnar alræmdu fór á skrið þar í landi. Takmarkanirnar hafa komið niður á flutningi varnings til hafna, þaðan sem baunirnar eru fluttar sjóleiðina vítt og breitt um heiminn.

Heildsöluverð á robusta baununum hafa hækkað um helming það sem af er ári. Víetnömsku kaffi- og kakó samtökin, ásamt fleiri útflutningssamtökum, hafa kallað eftir tilslökunum á takmörkunum sem hefta útflutning til að koma í veg fyrir frekari tafir á flutningum - með tilheyrandi kostnaði.