Angela Merkel Þýskalandskanslari gaf til kynna að bilið á milli Evrópu og Bandaríkjanna sé að breikka í kjölfar þess að Donald J. Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti. Þetta gaf kanslarinn til kynna í bjórtjaldi í Munchen, en í máli hennar kom fram að sambönd sem urðu til í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og hafa staðist tímans tönn væru að ákveðnu leyti ekki lengur til staðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Bloomberg.

Donald Trump mætti til Evrópu og dvaldi í níu daga. Á meðan á ferðalagi Trump stóð, skammaði hann NATO samstarfþjóðir fyrir að borga ekki sinn skerf í NATO samstarfinu, talaði um að afgangur Þýskalands af viðskiptajöfnuði væri „afar slæmur“ og var nálægt því að hætta við þátttöku Bandaríkjanna í Parísarsamkomulaginu.

„Þeir tímar þar sem við gátum að fullu leyti treyst á aðra eru nú loknir -- ég upplifði það á eigin skinni síðastliðna daga,“ sagði Merkel á fundinum. „Við Evrópubúar verðum að taka örlög okkar í eigin hendur,“ bætti hún við. Hún sagði þó að sjálfsögðu væru Evrópubúar enn vinveittir Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum nágrönnum á borð við Rússa. En hún lagði áherslu á þess að þeir þyrftu að berjast sjálfir fyrir framtíð sinni.