Hafliði Halldórsson hefur verið ráðinn framkvæmda stjóri markaðsstofunnar Icelandic Lamb og hefur hann þegar hafið störf. Markaðsstofan vinnur að því að auka virði sauðfjárafurða með markaðssetningu á erlendum mörkuðum og til erlendra ferðamanna. Að sögn Hafliða leggst nýja starfið vel í hann.

„Þetta er spennandi og þarft verkefni. Umbjóðendur mínir eru aðallega bændur sem eru að framleiða frábæra vöru en bera ekki mikið úr býtum sjálfir. Það er þarft verk að bæta úr því. Okkar markmið er að auka virði afurðarinnar upp alla virðiskeðjuna, en við vinnum einnig fyrir sláturleyfishafa. Það eru verkefni á markaðshliðinni sem þarf að ráðast í til þess að varanlegur árangur náist í auknu virði afurðanna."

Hafliði, sem er menntaður matreiðslumeistari, hefur komið víða við á atvinnuferli sínum og býr yfir víðtækri reynslu.

„Ég hef starfað við matarfagið í allmörg ár. Ég fór inn í það fyrir rúmum áratug síðan að starfa hjá heildverslun sem meðal annars þjónustar veitingageirann hér á Íslandi. Í því starfi fékk ég mikinn áhuga á markaðsmálum innan matargeirans og hef síðan þá samhliða störfum mínum verið í ýmsum félagsmálum fyrir matreiðsluna. Ég gegndi starfi framkvæmdastjóra Kokkalandsliðsins þar til nýverið. Ég lagði mikla áherslu á að innleiða markaðshugsun inn í starfsemi Kokkalandsliðsins og að endurmarka vörumerki og verkefni þess. Það var mjög dýrmæt reynsla sem ég öðlaðist í starfi mínu hjá Kokkalandsliðinu. Ég hef einnig sinnt þjálfun og dómgæslu í kokkafaginu. Þessi reynsla nýtist mér vel í starfi þar sem ég tel mig vegna hennar vera hæfan til að meta gæði íslenska lambakjötsins, sem að mínu mati er hágæða vara," segir Hafliði.

„Mín helstu áhugamál eru útivera og sjókajakróður. Ég er alinn upp fyrir vestan og fer þangað mjög reglulega. Við fjölskyldan erum með lítið fyrirtæki vestur á fjörðum í Ísafjarðardjúpi sem býður upp á sjókajakferðir á sumrin og ég hef verið leiðsögumaður í þessum ferðum í mörg sumur. Þessar ferðir eru ótrúlega skemmtilegar og maður kemst nánast hvergi nær náttúrunni og dýralífinu en í slíkum ferðum. Svo kem ég úr matarbransanum og hef því gífurlegan áhuga á öllu sem að honum snýr svo sem matreiðslu og uppruna hráefna. Það má í rauninni segja að áhuginn á mat sé nördaáhugamál hjá mér."

Hafliði er giftur Heiðu Sigurbergsdóttur og á fjögur börn, og þar að auki fjögur barnabörn. „Ég bý mjög vel að eiga stóra og yndislega fjölskyldu. Það er því óhætt að segja að ríkidæmi manns sé mikið," segir Hafliði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .