Tveir meðlimir Evrópuþingsins hafa kallað eftir því að samfélagsmiðillinn Facebook verði tekinn til rannsóknar vegna skjala sem benda til þess að gróði sé fyrirtækinu ofar í huga en almannaheill. Reuters greinir frá.

Frances Haugen, fyrrverandi vörustjóri hjá Facebook, er sú sem lak innanbúðarskjölum úr röðum samfélagsmiðlarisans í fjölmiðla. Wall Street Journal hefur m.a. fjallað ítarlega um skjölin.

Sjá einnig: Vissu að Instagram væri skaðlegt táningum & Skella skollaeyrum við mansali og dópi

Christel Schaldemose, sem situr á þinginu fyrir hönd Danmerkur og er annar þingmanna sem fer fram á rannsóknina, segir að skjölin sýni fram á mikilvægi þess að stóru tæknifyrirtækin komist ekki upp með að sjá sjálf um að regluvæða sig.

Alexandra Geese, fulltrúi Þýskalands á þinginu, tekur í sama streng og segir þetta mál undirstrika þörfina fyrir strangari reglur sem tæknifyrirtæki þyrftu að lúta, en slík tillaga hefur einmitt verið lögð fram af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.