Það hefur ekki verið lagt í neinar stórar innviðafjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu mjög lengi. Við erum að nota sömu stofnbrautir fyrir miklu fleiri bíla,” sagði Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands á fundi Heimavalla um leigumarkaðinn í morgun.

Ásgeir benti á að aukinn umferð á höfðuborgarsvæðinu hafi þrýsti upp fasteignaveði á eftirsóknarverði svæðum.

„Ég held að ein helstu mistök stjórnarinnar sem var á árunum 2009 til 2013 var að hafa ekki farið í innviðauppbyggingu. Að hafa ekki byggt Sundabraut til dæmis, af því að allir verktakar voru í hálfgerðu reiðuleysi og voru að undirbjóða hvern annan. Þannig að það var tiltölulega ódýrt að gera það og það voru til peningar, lífeyrissjóðirnir áttu peninga. Við erum að súpa seyðið af því núna. Umferðin datt niður og er að aukast núna og við erum ekki búnir að byggja þessar stofnbrautir eða umferðarmannvirki sem við þurfum að gera,” sagði Ásgeir.

„Ég sé ekki fyrir mér að Reykjavík geti vaxið áfram nema með töluvert áfram nema með töluvert miklum innviðaframkvæmdum. Til þess að Reykjavík geti verið stjórnsýslumiðstöð, þá er það er ekki bara þessi flugvöllur sem allir virðast vera með á heilanum, heldur þurfum við miklar innviðaframkvæmdir,” sagði Ásgeir.

Sundabraut hagsmunamál fyrir landsbyggðina

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykavíkurborgar, tók til máls á fundinum og velti fyrir sér áhuga Ásgeirs á byggingu Sundabrautar. Hjálmar benti á nýleg ummæli Smára Ólafssonar, samgönguverkfræðings hjá VSÓ ráðgjöf, sem taldi meira aðkallandi að setja Miklubrautina í stokk en að byggja Sundabraut. Sundabraut gæti einfaldlega ýtt umferðavandanum á undan sér með því að skapa aukinn umferðarþunga á Sæbrautinni.

„Sundabraut styttir leiðina inn í Reykjavík. Það er hagsmunamál fyrir landsbyggðina að fá betri aðgang inn í Reykjavík,” sagði Ásgeir.

Byggð rísi meðfram sjónum

Þá benti Ásgeir á að veðrið sé mjög breytilegt eftir svæðum á höfuðborgarsvæðinu. „Eftir því sem maður hækkar sig upp í landinu kemur meira regn, sagði Ásgeir.

„Ég tel að framtíðarbúsetusvæði höfuðborgarbúa séu meðfram sjónum. Við eigum heldur ekki að fara upp á heiðar. Ég sé Sundabraut fyrir mér sem leið til þess að tryggja vöxt borgarinnar áfram út, í Geldinganesi og hérna áfram og forsendu fyrir vexti Reykavíkur. Ég tel að þetta myndi til dæmis breyta miklu fyrir Grafarvog," sagði hann.