Nýtt hverfi rís nú sunnan við verslunarmiðstöðina Smáralind í Kópavogi og hefur verkefnið fengið nafnið 201 Smári. Áætlað er að 84 þúsund fermetrar af íbúðum og þjónustuhúsnæði verði reist á svæðinu, þar af 675 íbúðir. Smárabyggð, sem er í umsjón og rekstri fasteignaþróunarfélagsins Klasa, stendur fyrir byggingu mikils meirihluta íbúða á svæðinu, eða 640 af 675 íbúðum. Um síðastliðin áramót var fyrsta íbúðabyggingin á svæðinu, að Sunnusmára 24-28, tilbúin og fyrir skömmu hófst svo sala á íbúðum í tveimur byggingum til viðbótar, Sunnusmára 16-18 og Sunnusmára 20-22. Áætlað er að síðustu íbúabyggingar hverfisins fari í sölu árið 2022.

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir að ákveðið hafi verið að prófa að fara aðrar leiðir með því að bjóða upp á úrval af minni íbúðum en almennt hefur verið gert í nýbyggingum og svara þannig þörfum markaðarins. Þó standi einnig til boða stærri íbúðir á efri hæðum bygginganna.

„Þetta er þróunarverkefni sem við erum búin að vera að vinna að í nokkur ár í samstarfi við bæjarfélagið. Um er að ræða þéttingarverkefni þar sem byggt er inn í rótgróna byggð sem þegar býr yfir allri þjónustu, sem gerir þetta verkefni mjög spennandi."

Að sögn Ingva er meðalstærð íbúðanna sem nýlega fóru í sölu rúmlega 80 fermetrar, en stærð íbúðanna nái frá 45 fermetrum og upp úr. „Þetta eru litlar og hagkvæmar íbúðir sem skilast fulltilbúnar. Við teljum að markaðurinn hafi verið að kalla eftir þessu, enda hafa viðbrögðin verið mjög góð. Við höfum einbeitt okkur að því að gera minni íbúðir með mörgum herbergjum, þannig að þær henti líka fjölskyldum. Það eru því í boði tveggja og þriggja herbergja íbúðir sem eru tiltölulega litlar. Augljóslega verða herbergin þá minni fyrir vikið en þetta er aftur á móti minni fjárfesting og betur nýttir fermetrar."

Jón Rafn Valdimarsson, fasteignasali hjá Fasteignasölunni Mikluborg, segir að salan í Sunnusmára 16-22 hafi farið hratt af stað.

„Salan fer því virkilega vel af stað og ljóst að þetta eru íbúðir sem munu seljast mjög hratt. Íbúðirnar eru í mjög hagkvæmum stærðum, það er ekki verið að spreða fermetrum í þriggja herbergja íbúðir og hægt að fá slíkar íbúðir sem eru rúmlega 50 fermetrar. Þriggja herbergja íbúðir eru oft í kringum 100 fermetra, sem gerir það að verkum að þær eru oft of dýrar fyrir ungt fólk."

Stutt í alla þjónustu

Að sögn Ingva er markmiðið með staðsetningu hverfisins að stuðla að sjálfbærni og að helsta þjónusta sé í mikilli nálægð við íbúa. Meðal kosta staðsetningarinnar sé gott aðgengi að stofnbrautum, samgöngum og fjölda veitingastaða og verslana. Þá bendir hann á að stutt sé í þjónustu eins og leikskóla, skóla, heilsugæslu og íþrótta- og tómstundastarf.

„Helsti kostur verkefnisins er að við erum að fara inn í gróna byggð og vitum því að hverju við göngum - þarna er allt til staðar. Yfirleitt er öfugt farið í byggingarverkefnum - það er mynduð íbúabyggð í úthverfum þar sem byggist svo upp þjónusta síðar í kringum byggðina. Sambærileg verkefni hafa helst verið í miðbænum en það vilja kannski ekki allir búa þar. Í Smáranum ertu með ýmsa kosti miðbæjar eins og þjónustu og tengingar. Auk þess er hverfið staðsett mjög nálægt miðju höfuðborgarsvæðisins, sem er mikill kostur.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .