Kanadísk flugmálayfirvöld hafa greint frá því að kyrrsetningu Boeing 737 Max þotanna í landinu verði aflétt á morgun, en þoturnar voru kyrrsettar á alþjóðavísu í tæplega tvö ár. Kanada bætist þar með í hóp með nágrönnum sínum í Bandaríkjunum en kyrrsetningu Max þotanna hefur til að mynda ekki enn verið aflétt í Evrópu. Reuters greinir frá.

Í kjölfar fregnanna greindi Air Canada frá því að Boeing 737 Max þotur félagsins myndu snúa aftur inn í flugáætlun félagsins innan Norður-Ameríku þann 1. febrúar nk.

Líkt og löngu þekkt er orðið voru Boeing 737 Max þoturnar kyrrsettar á alþjóðavísu í mars árið 2019 í kjölfar tveggja mannskæðra slysa. Galli í sjálfsstýringarbúnaði þotunnar var orsakavaldur slysanna.