Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur kveðið upp úr um gjaldþrotaskipti yfir Kántrýbæ ehf, sem skráð er á Hólanesvegi 11 Skagaströnd.

Í frétt frá árinu 2014 á vefsíðunni Veitingageirinn kemur fram að reksturinn hafi verið settur í sölu, en ætlunin sé að halda húsinu lengur, og var þar rætt við Gunnar Halldórsson, tengdason Hallbjörns Hjartarsonar Kántrýkóngs.

Tæplega 400 fermetra bjálkahús til sölu

Á fasteignavef mbl er nú hægt að sjá að bjálkahúsið á Hólanesvegi 11, þar sem reksturinn fór fram er komið í sölu á vegum Domus fasteignasölu. Húsið er sagt vel staðsett bjálkahús miðsvæðis á Skagaströnd, en ásett verð eru 33 milljónir króna, fasteignamatið er 20.900.000 en brunabótamatið er hátt í 103 milljónir króna.

Engar skuldir eru sagðar áhvílandi á húsinu, en það var byggt árið 1998, fyrir utan salinn sem er frá árinu 1945 en var endurbyggður að hluta það ár, en í heildina er eignin 384 fermetrar að stærð.